2. apríl 2020

Guðjón Ragnar Jónasson ráðinn til starfa við skólann

Guðjón Ragnar Jónasson hefur verið ráðinn til starfa við skólann til að sinna símenntun sem og hollvinasamtökum skólans. Guðjón hefur nú þegar hafið störf í skertu starfshlutfalli, en kemur inn að fullu í sumar og mun þá einnig sinna stærra hlutverki á markaðssviði skólans.

Guðjón er fæddur í Reykjavík og lauk búfræðiprófi frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri árið 1997, í framhaldi af því starfaði hann sem bóndi um nokkurra ára skeið. Í framhaldi lauk hann kennaranámi við Kennaraháskóla Íslands árið 2004, M.Paed prófi í kennslufræðum frá Háskóla Íslands árið 2007 og MA prófi í íslenskum fræðum frá sama skóla árið 2009. Allt frá árinu 2003 hefur Guðjón starfað við kennslu í grunn- og framhaldsskólum svo og í háskólum en í dag starfar hann sem íslenskukennari við Menntaskólann í Reykjavík en sinnir auk þess stöðu gæðastjóra við skólann.

Guðjón hefur auk þess gefið út og þýtt fjölda bóka, þar á meðal eru barnabækur, kennslubækur í íslensku og fræðibækur. Þar má nefna alþýðlegu fræðibókina Kindasögur sem kom út síðastliðið haust. Auk þess hefur hann ritað í tímarit og dagblöð um menntamál og byggt upp bókaforlagið Sæmund í samstarfi við Bjarna Harðarson og ritstýrt fjölda bóka í tengslum við það.

Við bjóðum Guðjón velkominn til starfa!

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta