Græn fatahönnun með tæknivæðingu
Í fyrsta sinn á Íslandi verður boðið upp á nám í stafrænni fatahönnun við Háskólann á Bifröst. Þá ríður Háskólinn á Bifröst fyrstur á vaðið hér á landi með örnám til ECTS eininga.
Björg Ingadóttir fatahönnuður og stofnandi Spaksmannsspjara stýrir nýju örnámslínunni, sem hentar þeim sem eru menntaðir fatahönnuðir eða hafa áhuga á fatahönnun.
Björg, sem var nýlega í viðtali í Kastljósi RÚV í tilefni af nýju námslínunni, boðar með nýju námslínunni byltingakenndar aðferðir í fatahönnun, ekki hvað síst m.t.t. umhverfis- og loftslagsverndar.
„Það er nauðsynlegt fyrir okkur að draga úr kolefnisfótsporinu og í raun eigum við ekki að þurfa að sóa neinu í fatahönnun ef við færum okkur í stafræna hönnun. Þetta er framtíðin það er ekki spurning,” segir Björg sem hefur á undanförnum árum sótt mikið af endurmenntunarnámskeiðum sjálf víða um Evrópu og kynnt sér það nýjasta sem er að gerast í þessum efnum.
Sjálf námslínan er jafnframt mikil nýlunda hér á landi, sem 12 ECTS eininga örnám hjá Endurmenntun Háskólans á Bifröst. Örnám hefur verið að sækja mikið á í Evrópu undanfarin ár, sem aðgengileg og hentug leið fyrir fólk til að afla sér viðurkenndrar þekkingar og færni á afmörkuðum sviðum.
Þá er örnámið í stafrænni fatahönnun í boði í samstarfi við BA námslínu í Skapandi greinum sem Háskólinn á Bifröst býður upp á einn háskóla á Íslandi. Býðst nemendum í BA námi í skapandi greinum að taka það sem valáfanga.
Anna Jóna Kristjánsdóttir, forstöðumaður Endurmenntunar Háskólans á Bifröst, segir þessa nýstárlegu námsleið marka tímamót. Markmið námsins er að nemendur geti með aðferðum stafrænnar fatahönnunar gert sig gildandi fatahönnun og tískumótandi fataframleiðslu. Á meðal þess sem er á námsskránni auk hönnunar, má nefna stafræna sníðagerð, undirbúning fyrir framleiðslu og stíliseringu.
Að loknu námi hafa nemendur hlotið traustan grunn í aðferðum fatahönnunar með stafrænni tækni. Einingabært örnámi í stafrænni fatahönnun er einkum ætlað þeim sem eru útskrifaðar fatahönnuðir, bæði þeir sem eru á vinnumarkaði og þeir sem vilja endurmenntun til að styrkja stöðu sína á atvinnumarkaði. Námið gæti einnig höfðað til klæðskera sem eru í námi og vilja tileinka sér nýjustu aðferðir. Eins til þeirra sem hafa lokið námi í framhaldsskóla úr fatahönnun, tölvuleikjagerð, iðnnámi eða listnámi og huga að frekara hönnunarnámi.
Umsóknarfrestur er til 11. desember nk.
Nánari upplýsingar eru á vef Háskólans á Bifröst.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta