Glæsileg útskrift frá Háskólanum á Bifröst
Laugardaginn 24. febrúar, útskrifaði Vilhjálmur Egilsson rektor alls 76 nemendur við hátíðlega athöfn. Útskriftarhópurinn samanstóð af nemendum úr viðskiptadeild, félagsvísinda- og lagadeild, námi í verslunarstjórnun og Háskólagátt.
Í hátíðarræðu sinni til útskriftarnemenda vék Vilhjálmur að gildum skólans sem eru frumkvæði, samvinna og ábyrgð. Af þessum gildum leiðir að áhersla er í náminu á hvatningu til heilbrigðs metnaðar og að rækta frumkvæði nemenda. Einnig að efla samvinnugetu einstaklingsins og hæfni til vinna með mismunandi fólki, þar sem styrkleikar hvers annars eru nýttir. Í námi við Háskólann á Bifröst er markvisst stuðlað að því að kenna nemendum ábyrgð gegnum verkefnavinnu en hún er þannig uppbyggð að nemendur þurfa að deila og bera ábyrgð, gagnvart sjálfum sér og öðrum.
Stefnumörkun á aldarafmæli skólans
Háskólinn á Bifröst er 100 ára á þessu ári og er í stöðugri þróun. Á síðasta ári var t.a.m. farið í stefnumótun fyrir skólann og greindi Vilhjálmur frá helstu niðurstöðum stefnumótunarvinnunnar í ræðu sinni. Meðal niðurstaðnanna var að skilgreina Háskólann á Bifröst sem viðskiptaháskóla en halda nafni skólans óbreyttu. Að Bifröst sé fyrsti kostur staðsetningar fyrir skólann og ekkert frumkvæði verði haft að flutningi hans. Haldið verði áfram að vera í fararbroddi í fjarnámi og þróað nýtt námslíkan fyrir nemendur búsetta á Bifröst. Auk þess verður horft til aukins samstarfs við aðrar háskólastofnanir og sótt fram á alþjóðavettvangi.
Verðlaun og útskriftarræður
Útskriftarverðlaun í grunnnámi hlutu, Sandra Ýr Pálsdóttir, viðskiptadeild og Ásta Sóllilja Karlsdóttir, félagsvísinda- og lagadeild. Í meistaranámi hlutu útskriftarverðlaun, þau Kári Steinar Lúthersson, viðskiptadeild og Erla María Árnadóttir, félagsvísinda- og lagadeild. Að auki fengu tveir nemendur felld niður skólagjöld á haustönn vegna framúrskarandi námsárangurs, þau Vera Dögg Höskuldsdóttir, viðskiptadeild og Pétur Steinn Pétursson, félagsvísinda- og lagadeild.
Ræðumaður fyrir hönd grunnnema viðskiptadeildar var Unnur Steinsson og fyrir hönd grunnnema félagsvísinda- og lagadeildar var Hallgrímur Tómasson. Ræðumaður fyrir hönd meistaranema var Lee Ann Maginnis.
Þóra Sif Svansdóttir sá um söngatriði við útskriftina við undirleik Daða Georgssonar. Að athöfn lokinni þáðu gestir léttar veitingar.
Horfa má á athöfnina í heild sinni hér.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta