8. febrúar 2024

Gervigreind í þágu sjálfbærni

Nýlega kom út hjá forlaginu PalgraveMacMillan bókin „Artificial Intelligenge for Sustainability – Innovations in Business and Financial Services“, en að ritstjórn hennar standa í sameiningu Thomas Walker, Sherif Goubran, Tyler Schwarz og Stefan Wendt, sem er jafnframt deildarforseti við viðskiptadeild Háskólans á Bifröst.

Auk þess að eiga aðild að ritstjórn bókarinnar, þá er Stefan Wendt jafnframt ásamt Þresti Olaf Sigurjónssyni einnig meðhöfundur að kafla í bókinni sem nefnist „Artificial Intelligence and the Food Value Chain“.

Í kynningu á efni bókarinnar segir m.a. að með hliðsjón af yfirstandandi loftslagsvá megi gera ráð fyrir að sjálfbærni sé höfð að leiðarljósi í ákvarðanatöku hjá fyrirtækjum, með það fyrir augum að draga úr neikvæðum áhrifum af starfsemi þeirra á umhverfið og samfélag – auk þess styrkja þá samtímis þau áhrif sem teljast jákvæð. Að sinna daglegum rekstri samhliða þessu er þó verulega krefjandi. Það hefur því vakið talsverða athygli að gervigreind (AI) hafi verið kynnt til sögunnar sem möguleg lausn í þessum efnum eða „týnda púslið“, eins og það er orðað.

Í bókinni er á yfirvegaðan hátt fjallað um ávinning og kostnað af notkun gervigreindar varðandi náttúrulegt umhverfi og samfélag, s.s. með greiningu á möguleikum AI á að styðja við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Þá deilir vísinda- og fræðafólk, sérfræðingar, eftirlitsaðilar og frumkvöðlar sem eru í fararbroddi sjálfbærra gervigreindarlausna innsýn sinni í ólíkar gerðir af sjálfbærri notkun gervigreindar, með áherslu á það, hvernig þessi nýja tækniþróun getur eflt baráttuna gegn loftslagsbreytingum og greitt fyrir úrlausnum á vandmeðförnum áskorunum í umhverfislegu og félagslegu tilliti.

Jafnframt er það von ritstjóranna að útgáfa bókarinnar muni vekja áhuga fræðimanna jafnt sem nemenda í stafrænum viðskiptum og nýrri tækni, á sjálfbærni og stefnumótun.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta