Örlygur Hnefill ásamt þátttakendum í geimferðarnámskeiði hjá honum.

Örlygur Hnefill ásamt þátttakendum í geimferðarnámskeiði hjá honum.

16. desember 2022

Geimferðatengd ferðaþjónusta

Uppbygging Örlygs Hnefils Örlygssonar í geimferðatengdri ferðaþjónustu er skemmtilegt dæmi um frumkvöðlastarf á heldur nýstárlegu sviði.

Örlygur Hnefill er ásamt eiginkonu sinni Jóhönnu Ásdísi Baldursdóttur í diplómanámi í skapandi greinum við Háskólann á Bifröst. Þessi knái frumkvöðull vakti nýlega verðskuldaða athygli þegar fjölmiðlar fjölluðu um alþjóðlegt geimferðanámskeið sem hann hefur komið á fót á Húsavík fyrir ungt og áhugasamt fólk um geimferðir.

Námskeiðið er skemmtilegt hliðarverkefni við Könnunarsafnið, safn helgað vísindum, geimferðum og landkönnuðum, sem þau hjón hafa verið að byggja upp. Safnið er á milli húsa sem stendur. „Við stefnum að því að opna það aftur eftir rúmt ár í nýju húsnæði sem við erum að innrétta,“ segir Örlygur. 

Geimferðanámskeiðið er einnig í stöðugri þróun hjá Örlygi. Hugmyndinn er sprottinn upp af þeim heimsóknum sem NASA, bandaríska geimferðastofnunin stóð fyrir hingað til lands 1965 og 1967 í tengslum við þjálfun fyrstu geimfaranna sem fóru til tungslins.

„Ísland þótti bjóða upp á áþekkar aðstæður og á tunglinu til jarðvísindalegra og náttúruvísindalegra rannsókna. Geimfararnir voru flugmenn með litla akademíska menntun og kannski takmarkaðan áhuga á vísindalega þættinum. Með ferðunum hingað til Íslands breyttist það. Það tókst að kveikja hjá þeim áhuga á rannsóknarvinnunni.

Það má því segja að Örlygur feti þarna fótspor sem Neil Armstrong lýsti svo eftirminnilega sem smáu skrefi fyrir sig en risastóru stökki fyrir mannkynið.

 „Við höfum einungis tekið á móti litlum hópum og þannig hefur okkur tekist að kljúfa þetta fjárhagslega. Spurningin er síðan sú, hvort stíga megi skrefið til fulls með stærra prógrammi,“ segir hann ákveðinn. 

Þegar kemur að ferðaþjónustu og uppbyggingu er Örlygur enginn aukvisi, þrátt fyrir ungan aldur, en auk Könnunarsafnsins hefur hann sett á fót og rekið hótel á Húsavík ásamt Jaja Ding Dong barnum og Eurovision-safninu.

Þetta misserið hafa Örlygur og Jóhanna hins vegar einbeitt sér að náminu í Skapandi greinum við Háskólann á Bifröst. Þau eru skráð í diplómu og líkar námið það vel að þau eru að bræða með sér að halda áfram og taka bakkalárgráðu í faginu.

„Þetta er alveg rosalega gaman og mér þykir námið sérstaklega gagnlegt því það kemur inn á marga þætti sem ég hef unnið við en dýpkar skilning og gefur ný tæki og tól“ segir Örlygur glaður í bragði.

Sjá ítarlegt viðtal við Örlyg á mbl.is

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2022/11/30/thjalfa_geimfara_framtidar_vid_husavik/

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta