Frá HHS í grænan kosningaslag 6. janúar 2016

Frá HHS í grænan kosningaslag

Nám í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði (HHS) er góður undirbúningur fyrir hvers kyns störf og veitir víðtæka og fjölþætta þekkingu á gangverki nútíma samfélags. Gústaf Gústafsson, markaðsstjóri hjá Norðursiglingu, lauk nýverið námi í HHS hér á Bifröst: „Námið hefur nýst mér vel í starfi en hin þverfaglega nálgun skapar afar gagnlega og áhugaverða innsýn og eflir gagnrýna hugsun“ segir Gústaf.

Umhverfisvæn ferðaþjónusta

„Ég er vöruþróunar-, sölu- og markaðsstjóri hjá Norðursiglingu en það er fyrirtæki sem vinnur ötullega að nýsköpun á sviði umhverfisvænnar ferðaþjónustu,“ segir Gústaf en á síðasta ári kynnti Norðursigling til leiks nýja tækni sem gerir þeim fært að bjóða upp á hvalaskoðunarferðir sem eru eingöngu knúnar áfram af umhverfisvænum orkugjöfum. „Í starfinu, líkt og náminu, fléttast saman ólíkar áherslur og fræðigreinar; frá tæknilegri nýsköpun og frumkvöðlastarfi á sviði umhverfismála til virkrar þátttöku í hinni ört vaxandi ferðaþjónustu.“

Netkosning til stærstu umhverfisverðlauna Evrópu

Nýsköpun Norðursiglingar hefur vakið athygli og unnið til verðlauna bæði hérlendis og erlendis, og er nú eitt af tíu verkefnum sem mögulega geta hneppt hin eftirsóttu GreenTec Awards árið 2016, stærstu umhverfis- og viðskiptaverðlaun Evrópu.

„Ég stend því í grænum kosningaslag um þessar mundir og hvet Bifrestinga sem og aðra eindregið til að kjósa okkur á netkosningu sem fer fram um þessar mundir á greentec-awards.com, en þess ber að geta að við erum í ferðaflokki (e. Travel Category). Það væri mikill akkur fyrir umhverfisvæna ferðaþjónustu á Íslandi sem og ímynd Íslands yfir höfuð ef við fengjum góða kosningu!“ 

Hægt er að kjósa um GreenTec verðlaunin hér: http://www.northsailing.is/greentec/

Umhverfisvæna rafmagnsskipið Opal í hvalaskoðun
 
 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta