Forvörslu á Vorgleðinni lokið
Vorgleðin er vegglistaverk eftir Hörð Ágústsson listmálara, sem skreytir gamla anddyrið í Háskólanum á Bifröst. Þetta einstaka listaverk hefur gengið í endurnýjun lífdaga eftir velheppnaða forvörslu sem Hollvinasjóður Bifrastar hafði millgöngu um að fjármagna.
Vorgleðin var máluð árið 1955, þegar Guðmundur Sveinsson var skólameistari að Bifröst, síðar skólameistari Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Þetta er annað af tveimur vegglistaverkum eftir Hörð og það eina sem enn stendur eftir. Það er mörgum Bifrestingum minnistætt sem eitt helsta kennileiti skólastarfsins á Bifröst, en það blasir við hverjum þeim sem kemur inn í anddyri gömlu aðalbyggingarinnar.
Hörður Ágústsson (1922-2005) var einn af fremstu og fjölhæfustu listamönnum þjóðarinnar. Á listferli sínum, sem spannaði meira en hálfa öld, lét hann að sér kveða sem m.a. myndlistarmaður, hönnuður, kennari og fræðimaður á sviði sjónvísinda.
Söfnun er enn í gangi
Að sögn Bergþórs Guðmundssonar, formanns Hollvinasjóðs Bifrastar, setti sjóðurinn af stað síðastliðið haust söfnun framlaga frá hollvinum Bifrastar til að fjármagna verkefni sem tengjast elstu skólabyggingunum á Bifröst, en byggingin var árið 2020 friðlýst af Minjastofnun. Þegar hafa tæplega 150 hollvinir lagt fé til söfnunarinnar og í samráði við Margréti Jónsdóttur Njarðvík, rektor háskólans, var ákveðið að styrkja forvörslu Vorgleðinnar að þessu sinni. Kann Bergþór öllum þeim sem hafa lagt fé til söfnunar hollvinasjóðsins bestu þakkir fyrir góðar undirtektir.
Söfnunin er enn í gangi og hafa valgreiðslur verið sendar í heimabanka. Þeir sem hafa hug á að styrkja verkefni sem tengjast sögufrægu byggingunum á Bifröst eru hvattir til að ganga frá valgreiðslu sinni. Mörg verkefni bíða enn fjármögnunar, mörg hver brýn. Einnig má leggja beint inn á reikning Hollvinasjóðsins til að styrkja næstu verkefni sjóðsins:
Bankareikningur 0326-26-000724, kennitala 420714-0330
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta