Fagmennska í menningarstjórnun 29. apríl 2015

Fagmennska í menningarstjórnun

Nokkuð hefur farið fyrir umræðu um ráðningu nýs óperustjóra síðustu daga, meðal annars í fréttum og í leiðara Fréttablaðsins.

Í umræðunni um stöðuveitinguna ber mest á óánægju sem beinist fyrst og fremst að ráðningarferlinu sjálfu, að það sé ógagnsætt og að ekki hafi verið staðið faglega að ráðningunni. Minna er um að fjallað sé um verðleika hins nýja óperustjóra eða hæfileika til þess að gegna starfinu, nema að einhverjir hafa orðið til að benda á að umsækjandinn hafi ekki reynslu af uppsetningum á óperum. Um það skal ekki dæmt hér en það er væntanlega erfitt að finna nokkurn sem full sátt er um í öllum hornum og erfitt að setja sig inn í þær forsendur sem stjórn Óperunnar hefur gefið sér við ráðninguna.

Mikilvægt er hins vegar að tekið verði af skarið með það að ráðningarferli eins og það sem notað er við jafn mikilvægt starf og starf óperustjóra sé hafið yfir deilur. Hver svo sem niðurstaða valnefndar eða stjórnar er, þarf að liggja fyrir rökstuðningur og yfirlit yfir það ferli sem farið var í til þess að velja hæfasta umsækjandann. Tryggja þarf að ferlið sé ekki aðeins hlutlaust heldur að sýnilegt sé að það sé óhlutdrægt og að allir umsækjendur hafi sömu möguleika óháð hagsmunatengslum eða klíkuskap.

Fram hefur komið að stjórn Óperunnar ræddi aðeins við einn umsækjanda og að umsækjendur sem höfðu reynslu af rekstri, óperuuppsetningum og menntun á sviði menningarstjórnunar fengu ekki tækifæri til að kynna hugmyndir sínar. Virðist því mögulegt að stjórnin hafi verið búin að ákveða hvern hún ætlaði að ráða og aðrir umsækjendur hafi verið hafðir að fíflum.

Íslenska óperan er kraftaverk í okkar litla samfélagi, fædd af frjórri grasrót söngvara og sorfin í hugsjónaeldi fólks sem vildi ekki skilja að Íslandi væri of lítið fyrir sjálfstæða atvinnuóperu. Í dag er Óperan þekkt fyrir listræna fagmennsku og er ein helsta menningarstofnun á Íslandi með mikinn opinberan stuðning og velvild í samfélaginu. Það leggur stjórnendum hennar skyldur á herðar.

Að velja æðsta stjórnanda menningarstofnunar, líkt og óperustjóra, er bæði erfitt verkefni og oft vanþakklátt. Það breytir ekki því að vinna þarf þá vinnu sem fyrir liggur og fara í gegnum þá ferla sem taldir eru til fagmennsku í menningarstjórnun. Engin ráðningarþjónusta tekur af stjórnendum það ómak.

Njörður Sigurjónsson


Grein sem birtist á Vísi.is

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta