Eiríkur Bergmann heldur fyrirlestra í Moskvu í tilefni af útgáfu bókar um þróun lýðræðis
Dr. Eiríkur Bergmann er meðal höfunda í bók um framþróun lýðræðis sem ISEPR-stofnunin í Moskvu gefur út. Hann hélt af því tilefni fyrirlestur við Alþjóðaháskólann í Moskvu og ræðir lýðræðismál við fulltrúa á skrifstofu forseta Rússlands.
Í vikunni kom út bókin Democracies XXI: a Paradigm Shift sem ISEPR stofnunin í Moskvu gefur út (http://www.isepr.ru). Bókin sem kemur út samtímis á ensku og rússnesku var kynnt á troðfullum blaðamannafundi á Kempinski hótelinu í miðborg Moskvu í gær þriðjudag 2. júní. Á meðal höfunda er Dr. Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. Kafli hans í bókinni nefnist Citizen Assemblies in Response to Crisis of Democratic Representation.
Eiríkur hélt að því tilefni opinn fyrirlestur um framþróun lýðræðis við alþjóðaháskólann í Moskvu (MGIMO - Moscow State Institute of International Relations). Hann ræddi einnig útgáfu bókarinnar á blaðamannafundinum og heldur enn fremur erindi á lokuðum fundi með fulltrúum á skrfstofu forseta Rússlands.
Í bókinni og í erindum sínum í Moskvu ræðir Eiríkur lýðræðistilraunir sem gerðar hafa verið víða um heim og hvernig notast megi við borgarþing (e. deliberative mini publics) við lýðræðislega ákvörðunatöku. Tekur meðal annars dæmi af tilrauninni í kringum íslenska Stjórnlagaráðið. Þótt það hafi ekki náð markmiðum sínum megi læra af ferlinu og nota margt úr því sem fyrirmynd við hönnun nýrra lýðræðisaðferða sem byggja á virkri þátttöku almennings í lýðræðislegri rökræðu og ákvarðanatöku.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta