Dr. Magnús Skjöld hlýtur styrk sem Jean Monnet Chair til rannsókna og kennslu á sviði öryggismála á norðurslóðum
Dr. Magnús Árni Skjöld Magnússon, prófessor við Háskólann á Bifröst, hefur hlotið Jean Monnet-styrk frá Evrópusambandinu sem Jean Monnet Chair til þriggja ára. Verkefnið beinist að rannsóknum og kennslu á sviði öryggismála og norðurslóða, með sérstakri áherslu á stöðu Íslands í breyttu alþjóðlegu samhengi.
Verkefnið, sem ber heitið “Iceland’s strategic role in Arctic and European security”, (ISARCEUR), felur í sér markvissa eflingu á Evrópufræðum við skólann með áherslu á öryggis- og varnarmál, orkuöryggi, fjölþátta ógnir og stefnumótun á Norðurslóðum. Verkefnið bregst við vaxandi mikilvægi þessara málefna í alþjóðlegu og íslensku samhengi og miðar að því að efla fræðilegan grunn og samfélagslega umræðu um hlutverk Íslands í evrópsku öryggisumhverfi og á norðurslóðum.
Í tengslum við verkefnið verða þróuð þrjú valnámskeið við námslínu í stjórnvísindum, en þau munu standa öðrum nemendum við Háskólann á Bifröst til boða, en líklegt er að þau muni einnig sérstaklega höfða til nemenda í öryggisfræðum og almannavörnum og jafnvel áfallastjórnun.
Verkefnið felur einnig í sér rannsóknir með áherslu á öryggismál, fjölþátta ógnir og varnarsamstarf. Jafnframt verður lögð áhersla á miðlun rannsókna til háskólasamfélagsins, almennings og stjórnvalda í gegnum málstofur, stefnumótunarsmiðjur og stafræna vettvanga.
„Við stöndum frammi fyrir hröðum breytingum í öryggisumhverfi Íslands og á norðurslóðum. Með þessu verkefni viljum við efla fræðilega umræðu, stuðla að aukinni innsýn og auka getu okkar til að takast á við nýjar áskoranir í sífellt flóknara alþjóðasamfélagi,“ segir Magnús Árni.
Jean Monnet-áætlunin er hluti af Erasmus+-verkefnum Evrópusambandsins og styður háskólakennara og fræðafólk sem vinna að dýpri greiningu og miðlun á þróun evrópsks samstarfs og stjórnskipulags. Jean Monnet Chair styrkurinn er formlega veittur einum prófessor, sem hefur með sér teymi sem vinnur að markmiðum verkefnisins.
Í teyminu sem tóku þátt í umsókninni um styrkinn eru Dr. Eiríkur Bergmann, Dr. Bjarni Már Magnússon, Dr. Guðrún Johnsen, Atli Þór Fanndal, Sólveig Ólafsdóttir og Sigurrós Jónsdóttir. “Þó þetta sé styrkur sem er formlega veittur einum fræðimanni, er klárt að hið öfluga teymi sem við gátum sýnt fram á hér við Háskólann á Bifröst á fræðasviði styrksins hafði allt um það að segja að styrkurinn var veittur. Ég hlakka til að vinna með þessum öfluga hópi að markmiðum verkefnisins,” segir Magnús.
Styrkurinn felur í sér að viðkomandi kennari kenni að lágmarki 90 kennslustundir á ári í tengslum við viðfangsefni verkefnisins, ásamt stuðningi við rannsóknir og miðlun þeirra til samfélagsins.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta