Dr. Magnús Árni Skjöld með lykilfyrirlestur á ráðstefnunni Íslenska þjóðfélagið á Hólum
13. maí 2025

Dr. Magnús Árni Skjöld með lykilfyrirlestur á ráðstefnunni Íslenska þjóðfélagið á Hólum

Laugardaginn 24. maí mun Dr. Magnús Árni Skjöld Magnússon, dósent við Háskólann á Bifröst, flytja lykilfyrirlestur á árlegu félagsvísindaráðstefnunni Íslenska þjóðfélagið, sem fram fer á Hólum í Hjaltadal.

Fyrirlestur Magnúsar ber yfirskriftina Milli fullveldis og aðlögunar: Langur vegur Íslands að Evrópusambandinu. Í erindinu verður fjallað um afstöðu íslenskra stjórnmálaflokka til Evrópusambandsins í aðdraganda alþingiskosninganna haustið 2024. Rannsóknin byggir á greiningu á svörum flokka við þremur lykilspurningum er varða mögulega þjóðaratkvæðagreiðslu um endurupptöku aðildarviðræðna, almenn viðhorf til aðildar og upptöku evrunnar. Niðurstöðurnar varpa ljósi á hvernig þessi málaflokkur speglast í flokkspólitískum línuskiptingum og í kjörfylgi í kosningunum, með hliðsjón af umræðu um mögulega þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2027.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna og skráningu má finna á heimasíðu Hólaskóla: https://www.holar.is/is/vidburdir/radstefnanislenska-thjodfelagid

Meðfylgjandi mynd var tekin á ráðstefnunni Regional Studies Association í Porto í Portúgal þar sem Magnús var einn fyrirlesara. Ljósmynd: Jurga Bučaitė-Vilkė