Ragnar Már og Brynjar Þór með gestum markaðsdagsins, Bifrestingunum og markaðsstjórunum Tinnu og Fanneyju.
7. maí 2024
Dagur markaðsfræðináms á Bifröst
Dagur markaðsfræðináms á Bifröst var nýlega haldinn við góða aðsókn á vinnustofu Kjarvals. Að deginum stóð viðskiptadeild Háskólans á Bifröst og er þetta jafnframt í fyrsta sinn sem markaðsfræðinám, á bæði grunnnáms- og meistaranámsstigi, er kynnt með þessu skemmtilega móti á vegum deildarinnar.
Sérstakir gestir dagsins voru Bifrestingarnir Tinna Jóhannsdóttir, markaðsstjóri hjá Orku Náttúrunnar, ON og Fanney Skúladóttir, markaðsstjóri hjá Blush, en auk þess sem þær stikluðu á starfsferli sínum að námi loknu, gáfu þær þátttakendum góð ráð úr bransanum og svöruðu spurningum úr sal. Mátti af öllu sjá að þátttakendur skemmtu sér vel.
Skipuleggjendur viðburðarins voru fagstjórarnir Brynjar Þór Þorsteinsson, lektor og fagstjóri meistaranáms í markaðsfræði og Ragnar Már Vilhjálmsson, aðjúnkt og fagstjóri markaðsfræðiáherslu í grunnnámi. „Dagurinn heppnaðist ótrúlega vel og þörfin greinileg á sameiginlegum vettvangi sem þessum, þar sem markaðsfólk frá Bifröst getur hist og gert sér glaðan dag saman. Við erum mjög stolt af öllu því frábæra markaðsfólki sem hefur útskrifast frá okkur og er að gera ótrúlega góða hluti í atvinnulífinu,“ sagði Brynjar Þór að vel heppnuðum degi loknum.
Þá spunnust verulegar umræður um mikilvægi þess stuðla að öflugri tengslamyndun á meðal markaðsfólks frá Bifröst og áhuginn á að hittast oftar í framtíðinni var mikill. „Það var virkilega gaman að hitta fyrrum nemendur. Þá þótti okkur ekki síður vænt um að fram komu skýrar óskir um að fleiri svona viðburðir yrðu haldnir og buðust meira að segja einhverjir til að halda næsta viðburð. Við stefnum því ótrauð á að endurtaka leikinn með haustinu,“ sagði Ragnar Már, kampakátur við dagslok.
Nánari upplýsingar má finna hér um meistaranám í markaðsfræði og hér um viðskiptafræði með áherslu á markaðsfræði.