COVID19, fjarvinna og stytting vinnuvikunnar á dagskrá CRANET 14. september 2021

COVID19, fjarvinna og stytting vinnuvikunnar á dagskrá CRANET

Stýrihópur CRANET rannsóknarinnar á Íslandi kom nýlega saman á Bifröst til að undirbúa gagnaöflun á vegum verkefnisins, sem fram fer nú í októberbyrjun. Gagnaöflun fyrir þessa alþjóðlegu samanburðarrannsókn í mannauðsstjórnun er gerð í samstarfi við mannauðsstjóra á þriggja ára fresti og er þetta í sjöunda sinn sem slíkra gagna er aflað hér á landi. Á meðal nýrra áskorana sem horft verður að þessu sinni til má nefna COVID19 faraldurinn og áhrif hans, fjarvinnu, styttingu vinnuvikunnar og jafnlaunavottun.

Alþjóðleg langtímarannsókn í mannauðsstjórnun

Að CRANET samstarfinu stendur hópur fræðimanna við viðskiptaháskóla víða um heim, sem unnið hefur að samanburðarrannsóknum á mannauðsstjórnun undir merkjum Cranfield Network on International Human Resource Management í meira en 20 ár. Stýrihópur hefur verið starfandi hér á landi á vegum verkefnisins frá 2003.

Auk samanburðar við þær aðferðir sem tíðkast á hverjum stað, er markmið CRANET langtímarannsóknarinnar að skoða þróun innan mannauðsstjórnunar. Bornar eru saman atvinnugreinar og niðurstöður skoðaðar eftir stærð fyrirtækja og stofnana. Rannsóknin spannar vinnubrögð og aðferðir í mannauðsstjórnun þ.m.t. mönnun og ráðningar, starfsþróun, frammistöðumat, kjaramál, hlunnindi, innri boðskipti, samdráttaraðgerðir og samskipti við stéttarfélög. Þá er verkaskipting skoðuð ásamt skipulagi mannauðsstjórnunar og þroskastigi hennar (Human Resource Maturity).

Nýtist íslenskum fyrirtækjum og stofnunum í æ ríkari mæli

Stofnanir og fyrirtæki sem tekið hafa þátt fá ítarlega endurgjöf, bæði hvað varðar heildarniðurstöður og afmarkaðar niðurstöður viðkomandi fyrirtækis/stofnunar. Þá viðast fyrirtæki/stofnanir í vaxandi mæli nýta sér eigin niðurstöður til að setja sér skýr markmið um þróun í mannauðsmálum.

Kynningarfundir verkefnisins hafa verið vel sóttir. Þá hafa á vegum þess verið gefnar út skýrslur og niðurstöður kynntar á alþjóðlegum ráðstefnum, fundum og námskeiðum, auk þess sem rannsóknin hefur verið nýtt í kennslu við Háskólann á Bifröst, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík og meistara- og doktorsverkefni.

Stýrihóp CRANET á Íslandi skipa Arney Einarsdóttir, dósent við HB, Katrín Ólafsdóttir, dósent við HR, Ásta Bjarnadóttir, skrifstofustjóri starfsþróunar og starfsumhverfis hjá Reykjavíkurborg og Sigríður Finnbogadóttir, verkefnastjóri. CRANET á Íslandi er styrkt af fjármálaráðuneytinu og Rannsóknasjóði Háskólans á Bifröst. Verkefninu er stýrt hér á landi af Arneyju Einarsdóttur.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta