Breytt verklag til að koma í veg fyrir kynbundna áreitni og ofbeldi 7. júní 2018

Breytt verklag til að koma í veg fyrir kynbundna áreitni og ofbeldi

Nýjar verklagsreglur og forvarnaráætlun hafa nú tekið gildi við Háskólann á Bifröst en í kjölfar #Me too umræðunnar var farið í allsherjar skoðun á regluverki háskólans um kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi. Háskólaráð Háskólans á Bifröst átti frumkvæðið að vinnunni en að henni komu nemendur, starfsfólk og akademískir starfsmenn skólans.

Vilhjálmur Egilsson rektor Háskólans á Bifröst undirritaði verklagsreglurnar þann 30. maí síðastliðinn.

„Við viljum koma í veg fyrir kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi í Háskólanum á Bifröst“ segir Vilhjálmur um helstu ástæður þess að farið var í að setja verklagsreglur og forvarnaráætlun í skólanum.

Vilhjálmur telur að mikilvægt sé að tryggja að úrræði séu til staðar telji einstaklingar sig hafa orðið fyrir kynferðislegu og/eða kynbundnu áreiti eða ofbeldi í háskólasamfélaginu. „Allir einstaklingar innan þess samfélags eiga að búa við það öryggi að þeir verði hvorki fyrir kynferðislegu eða kynbundnu áreiti eða ofbeldi. Ef að einstaklingur innan skólans telur sig verða fyrir slíku mun verða brugðist við með ábyrgum og skipulögðum hætti. Verklagsreglurnar eru lifandi skjal sem verður endurskoðað eftir þörfum.“  Segir rektor.

Forvarnaráætlun sem stuðli að gagnkvæmri virðingu í háskólasamfélaginu

Markmið forvarnaráætlunarinnar er að koma í veg fyrir kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi í Háskólanum á Bifröst. Með áætluninni vilja aðstandendur skólans stuðla að gagnkvæmri virðingu í háskólasamfélaginu og auka vitund á og skilning á viðfangsefninu. Lögð er mikil áhersla á að þess verði gætt að í öllum náms- og starfsaðstæðum við Háskólann á Bifröst að dregið verði á hættu á að aðstæður skapist sem líkur eru á að geti leitt til kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni eða ofbeldis.

Fagráð verður sett á laggirnar

Samkvæmt verklagsreglunum skal starfa fagráð við skólann skipað þremur einstaklingum sem mun taka við, fjalla um og meðhöndla tilkynningar sem til þess er beint frá einstaklingum og/eða aðilum innan skólasamfélagsins sem snerta kynferðislegt og/eða kynbundið áreiti og ofbeldi. Tveir fulltrúar í ráðinu munu starfa utan skólans og hafa faglega þekkingu sem nýtist í málefnum sem þessum, en þriðji aðilinn er valinn af starfsfólki skólans. Háskólaráð samþykkir skipun ráðsins og þá tvo utanaðkomandi aðila sem verða í ráðinu. Skólinn mun veita aðilum máls faglegan stuðning og ráðgjöf og þess verður gætt að málsmeðferð verði vönduð í alla staði.

Tilkynningarhnappur

Verklagsreglurnar verða birtar á innri og ytri vef skólans og þar verður einnig tilkynningarhnappur þannig að auðvelt verði að koma tilkynningum um mál sem eiga erindi til fagráðsins í réttan farveg.

Nýju reglurnar er hægt að kynna sér hér og hér

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta