Bifröst leiðbeinir háskólum í Evrópu við framkvæmd fjarnáms 30. mars 2020

Bifröst leiðbeinir háskólum í Evrópu við framkvæmd fjarnáms

Háskólar um allan heim finna sig nú knúna til að færa kennslu sína í fjarnám til að koma til móts við breyttar aðstæður vegna Covid-19 veirunnar. Vægi og eftirspurn fjarnáms eyks með hverju árinu og hafa háskólar fetað sig meira og meira inn á þá braut en skyndilega eru komnar upp þær tímabundnu aðstæður að hefðbundnir kennsluhættir eru ekki lengur valmöguleiki í flestum löndum. Háskólinn á Bifröst hefur þróað fjarnám sitt frá árinu 2004 og er á meðal fremstu háskóla í heimi þegar kemur að kennsluháttum á því sviði. Á síðustu vikum hefur fjöldi samstarfsskóla víðsvegar um Evrópu leitað til Bifrastar og óskað eftir leiðbeiningum og aðstoð um það hvernig fjarnámi er best háttað.

Síðastliðinn föstudag hélt Bifröst opinn kynningarfund á netinu þar sem starfsfólk skólans kynnti kennsluhætti og aðferðafræði skólans, sagði frá reynslu sinni og miðlaði hugmyndum sem hjálpað gætu skólum að hraða fjarnámsvæðingu sinni. Þar sem háskólinn hefur kennt allt nám sitt um árabil í fjarnámi hefur myndast mikil reynsla og þekking um uppbyggingu fjarnáms á meðal starfsfólks og stjórnenda skólans og álítur skólinn það vera samfélagslega skyldu sína að miðla þeirri þekkingu til skóla sem þurfa að bregðast við breyttum veruleika með stuttum fyrirvara.

Fundurinn var haldinn á Microsoft Teams og tóku yfir 70 kennarar og stjórnendur 15 háskóla frá 10 löndum víðsvegar um Evrópu þátt á fundinum þar sem farið var yfir lykilatriði í fjarkennslu og starfsfólk Háskólans á Bifröst miðlaði meira en 15 ára reynslu sinni af kennslu í fjarnámi. Mikil ánægja var á meðal þátttakenda fundarins og hefur Bifröst nú þegar hafist handa við að aðstoða nokkra þeirra skóla sem tóku þátt með innleiðingu fjarnáms í þeim skólum og ætlar starfsfólk og stjórnendur Bifrastar að verða þeim innan handar eins mikið og þörf er á.

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta