Bifrestingar sigra hugmyndahraðhlaup Gulleggsins
Nemendur úr ólíkum áttum sameinuðu krafta sína í Hugmyndahraðhlaupi Gulleggsins um síðustu helgi með glæsilegum árangri. Þau Sunna Guðlaugsdóttir, meistaranemi í menningarstjórnun við Bifröst, Margeir Haraldsson, grunnnemi í skapandi greinum við Bifröst, og Haukur Hólm Gunnarsson, nemandi í hátækniverkfræði við HÍ, báru sigur úr býtum í áskorun JBT Marel.
Sigurinn tryggir þeim 150.000 kr. verðlaunafé og sæti í Topp 10 í aðalkeppni Gulleggsins 2026. Hópurinn fékk verðlaun fyrir lausn á áskorun JBT Marel sem snýr að því hvernig minni matvælaframleiðendur geti nýtt sér sjálfvirknivæðingu og snjallar tæknilausnir.
Teymið kom með hugmynd að hugbúnaðarlausn sem samþættir gögn frá ólíkum vélum og skynjurum. Með því að innleiða sjálfvirka skýrslugerð léttir lausnin verulega á flókinni handavinnu við gæðaeftirlit og vottanir, sem hingað til hefur verið mikill þröskuldur fyrir smærri fyrirtæki.

Sunna Guðlaugsdóttir
"Við vorum öll án teymis í upphafi en skráðum okkur í sömu áskorun. Þetta sýnir hvað hægt er að gera á stuttum tíma með nýju fólki. Ég tók skref út fyrir þægindarammann og valdi áskorun sem lá ekki beint við mér. Það var sérstaklega gaman að vera með tvo listamenn í teyminu; það sýnir svo vel að skapandi hugsun er hugarfar sem má yfirfæra á hvað sem er, hvort sem það er hugbúnaður fyrir Marel eða gerð listaverks," segir Sunna um Gulleggið.

Margeir Haraldsson
Margeir ákvað að taka örnám í frumkvöðlastarfi frá Bifröst meðfram náminu í skapandi greinum. Hann segir námið hafa komið að góðum notum á Gullegginu. "Örnámið var bara ótrúlega gott. Ég held að við hefðum ekki getað unnið þessa hugmynd svona hratt nema út af þessu námskeiði. Við erum öll með reynslu í rekstri og hugmyndavinnu en það sem ég lærði mikið í örnáminu var að í staðinn fyrir að stökkva strax á fyrstu lausnina þá er gott að að skilja vandamálið og leyfa þeim sem þú vinnur með og þeim sem þekkja betur til að leiða þig líka svolítið áfram."
Við óskum Sunnu, Margeiri og Hauki innilega til hamingju með árangurinn!

Haukur Hólm Gunnarsson
Gulleggið, sem er stærsta og elsta frumkvöðlakeppni Íslands á hugmyndastigi er haldin árlega af KLAK - Icelandic Startups. Keppnin er öllum opin og sérstaklega ætluð þeim sem hafa áhuga á nýsköpun og stofnun fyrirtækja, óháð því hvort hugmyndin sé fullmótuð eða ekki. Sigurvegarinn hlýtur 2 milljónir króna frá Landsbankanum.
Masterclass Gulleggsins, opið og ókeypis námskeið þar sem þátttakendur fá aðstoð við að móta hugmyndir sínar, greina viðskiptatækifæri og útbúa kynningu sem uppfyllir skilyrði lokakeppninnar.
Lokakeppni: Fer fram 26. febrúar 2026 í Grósku.
Skráning: Opin til miðnættis 29. janúar 2026.
Gulleggið hefur verið stökkpallur fyrir mörg af þekktustu sprotafyrirtækjum landsins, eins og Controlant, Meniga og PayAnalytics.
Háskólinn á Bifröst er stoltur bakhjarl Gulleggsins.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta