Ásthildur ráðin fagstjóri náms í áfallastjórnun
Ásthildur Elva Bernharðsdóttir hefur verið ráðin fagstjóri náms í áfallastjórnun við félagsvísindadeild Háskólans á Bifröst. Um er að ræða nýtt nám og er Háskólinn á Bifröst eini háskóli landsins þar sem þetta nám stendur til boða. Ásthildur vann að undirbúningi námsins síðastliðinn vetur en námið var byggt upp í samstarfi við Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, Landsbjörgu, Rauða Krossinn, Slökkviliðið og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Ásthildur hefur lokið cand oecon prófi í viðskiptafræði og doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands en doktorsverkefni hennar var á sviði áfallastjórnunar (Culture and Crisis Management. How Culture Influences the Behavior of Decision Makers in Crisis Preparedness and Response). Ásthildur hefur sinnt rannsóknum og kennslu við Háskóla Íslands; sem fræðimaður innan Jarðskjálftamiðstöðvar og kennt námskeið í áfallastjórnun við stjórnmálafræðideild skólans. Auk þess hefur hún sinnt rannsóknum og kennslu í Svíþjóð, Bandaríkjunum og Japan. Síðastliðin þrjú ár hefur Ásthildur verið sjálfstætt starfandi fræðimaður hjá ReykjavíkurAkademíunni.
Nýja námsbrautin hefur fengið mikla athygli og skráningar gengið vel. Ásthildur horfir því bjartsýn til næsta vetrar. „Við erum þarna að nema ný lönd. Þetta er í fyrsta sinn sem heil námslína er sniðin utan um þetta fag á Íslandi og það er sannarlega tímabært í landi þar sem náttúran minnir reglulega á mátt sinn. En í náminu verður athyglinni einnig beint að annars konar ógn en stafar af náttúrunni, því líkt og önnur samfélög höfum við þurft að glíma við sífellt flóknari áföll, m.a. vegna lagtímaþróunar í alþjóðavæðingu og aukinna samskipta fólks, aukinnar upplýsingamiðlunar og félagslegs óróleika.“
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta