Arney Einarsdóttir hlýtur framgang í prófessorinn
Dr. Arney Einarsdóttir hefur hlotið framgang í stöðu prófessors við viðskiptadeild Háskólans á Bifröst samkvæmt niðurstöðu ytri dómnefndar.
Dómnefndina skipuðu Ólafur Þ. Harðarson, Benedikt Bogason og Margrét Sigrún Sigurðardóttir.
Arney er viðskiptafræðingur og brautskráðist með BS gráðu á viðskipta- og rekstrarsviði frá bandaríska háskólanum California State Polytechnic University árið 1990 og með MA gráðu í viðskiptafræði með áherslu á mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands árið 2004. Doktorsritgerð sína á sviði mannauðsstjórnunar varði hún síðan við viðskiptadeild Háskóla Íslands árið 2018.
Arney hefur kennt mannauðsstjórnun í háskólum hér á landi og víðar allt frá árinu 2005. Hún var lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík frá 2005 til 2017 og forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar HR í mannauðsstjórnun á árunum 2009 til 2017 og síðan lektor í mannauðsstjórnun við Háskóla Íslands frá 2018 til 2020. Hún hefur starfað sem dósent við Háskólann á Bifröst og fagstjóri meistaranáms í mannauðsstjórnun frá árinu 2020. Auk þess hefur Arney verið gestakennari við Háskólann í Árhúsum í Danmörku, Simon Fraser háskólann í Vancouver í Kanada og við Kýpurháskóla. Í gegnum árin hefur Arney einnig sinnt ráðgjöf á sviði mannauðsmála fyrir ýmis fyrirtæki og stofnanir og tekið þátt í og stýrt hæfnisnefndum í ráðningum fyrir ráðuneyti og aðrar opinberar stofnanir.
Þá hefur Arney um langt árabil látið til sín taka í rannsóknum á sviði mannauðsmála og hefur birt fjölda ritrýnda greina og bókarkafla, auk skýrslna og fyrirlestra á alþjóðlegum og innlendum ráðstefnum. Hún hefur tekið virkan þátt í nokkrum alþjóðlegum samstarfsverkefnum á fræðasviðinu og m.a. leitt alþjóðlegu CRANET rannsóknina fyrir Íslands hönd frá 2005 og á nú sæti í ráðgjafarnefnd verkefnisins. Um er að ræða alþjóðlegan samstarfsvettvang og langtíma samanburðarrannsókn sem framkvæmd er reglubundið í um 50 þátttökulöndum og hefur bæði hagnýtt og fræðilegt gildi. Auk þess hefur Arney tekið þátt í alþjóðlegri rannsókn á hönnun sérfræðistarfa (Global work design) og norrænni rannsókn um framtíð starfa (Future of Work) er var styrkt af Norrænu ráðherranefndinni. Hún er nú einnig þátttakandi fyrir Íslands hönd í norrænu samstarfsverkefni um norrænan viðnámsþrótt mannauðsstjórnunar á tímum áfalla, sem er styrkt af Sænska seðlabankanum.
Eru Arneyju færðar innilegar hamingjuóskir með framganginn.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta