
Anna Hildur meðal framsögumanna á ráðstefnu um Evrópskt menningarsamstarf
Anna Hildur Hildibrandsdóttir, fagstjóri skapandi greina við Háskólann á Bifröst, stjórnarformaður Rannsóknarseturs skapandi greina og verkefnisstjóri IN SITU, flytur erindið „Beyond Borders: My Journey through Cultural Production and International Collaborations“ (Handan landamæra: Ferðalag mitt í gegnum menningarframleiðslu og alþjóðlegt samstarf) á opnu málþingi sem fer fram í Reykjavík á morgun, föstudaginn 19. september, í Borgartúni 30 frá klukkan 10.00 - 16.00.
Málþingið er nýjasta verkefni Moving Classics: Sonic Bridges sem hlaut 140 milljóna styrk frá menningaráætlun Evrópu (Creative Europe). Á ráðstefnunni er áhersla lögð á menningarsamstarf á jaðri Evrópu og leitast við að varpa ljósi á hvernig listsköpun hverskonar geti unnið gegn sundrung á meðal fólks og þjóða. Skipuleggjendur eru Einkofi Productions og Creative Europe Desk á Íslandi (Rannís). Tónlistar- og kvikmyndagerðafólk ásamt rannsakendum og framleiðendum kynna sína reynslu og áherslur í menningarstarfi þvert á landamæri.
Í erindi sínu mun Anna Hildur fjalla um þau fjölmörgu tækifæri sem felast í alþjóðlegu samstarfi, byggt á reynslu sinni úr tónlistarútflutningi og menningarframleiðslu. Hún mun meðal annars segja frá hugmyndavinnu með tónlistarmanninum Bashar Murad og samstarfsaðilum í Dublin, París og Tallinn að verkefninu Betweenland, sem sótt var um styrk til Creative Europe fyrir síðasta vor. Auk þess mun hún fjalla um akademíska vegferð sína og rannsóknir innan IN SITU, þar sem hún skoðar áhrif menningar og skapandi greina á nýsköpun í landsbyggðum Evrópu.
Sem doktorsnemi í menningarlandfræði fléttar hún inn hugmyndum bresku landfræðingsins Doreen Massey um að staðir séu ekki kyrrstæð fyrirbæri heldur sífellt í mótun í gegnum tengsl og samskipti sem ná út fyrir landfræðilega stöðu — og hvernig menning, frásagnir og raddir sem ferðast milli staða verði hluti af menningu og staðarímyndum sem eru á stöðugri hreyfingu.
Málþingið stendur yfir allan daginn og er öllum opið að kostnaðarlausu. Boðið verður upp á léttar veitingar og skráning er nauðsynleg. Það fer fram í sal Kennarasambands Íslands á 6. hæð í Borgartúni 30 í Reykjavík og er aðgengi gott fyrir hjólastóla.
Boðið er upp á léttar veitingar.
Dagskrá málþingsins er sem hér segir:
Clara Ganslandt - sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi
Ragnhildur Zoega, verkefnastjóri Creative Europe Desk á Íslandi (Rannís) og Pétur Ármannsson Reykjavík Dance Festival
Hljóðheimur sem brú - áhrif og væntingar samstarfsaðila
Umræðustjórn: Ágústa Þórarinsdóttir
Samstarfsaðilar MCSB
Írland– Alison Brodie (Creative Placemakers)
Kýpur – George Georgiou (CultureTones)
Bosnía – Benjamin Cengic (Obojena Klapa)
Svartfjallaland – Branimir Zugic (ART365)
Makedónía – Kiril Gjozev (Umpaci)
Pálína Jónsdóttir, framleiðandi/leikstjóri Moving Classics Sonic Flux
Sylwia Zajkowska, leikkona og þátttakandi í Moving Classics Sonic Flux
Sýning á stuttmyndinni: Liminality
Anna Wojtynska lektor í mannfræði við HÍ, Martyna Daniel listakona og kvikmyndagerðakona, Dögg Sigmarsdóttir, verkefnastjóri.
Matthew Nolan, tónsmiður (Írlandi)
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta