Anna Hildur einn yfirframleiðenda nýrrar heimildarmyndar
Ástir, leyndarmál og tónlist
„Hin einstaka fröken Flower“ (The Extraordinary Miss Flower) er ný heimildarmynd sem byggir á sköpunarferlinu við nýjustu plötu Emilíönu Torrini. Myndin var frumsýnd á Íslandi á Iceland Airwaves sl. föstudag. Áhorfendum er boðið inn í töfrandi og tilfinningaríkan heim þar sem sönn saga Geraldine Flower heitinnar, vinkonu Emilíönu, er vakin til lífsins í gegnum tónlist, leik og listsköpun. Þegar ferðataska full af ástarbréfum frá sjöunda og áttunda áratugnum fannst við andlát Geraldine hófst ótrúleg frásögn um ástir, leyndarmál og tengsl sem varð Emilíönu hugljómun að sköpunarferlinu við plötuna Miss Flower. Myndin gerir því sköpunarferli skil á listrænan hátt. Emilíana þreytir jafnframt frumraun sína sem leikkona við hlið Caroline Catz sem er meðal annars þekkt fyrir leik sinn í Doc Martin sjónvarpsþáttaröðinni. Saman leiða þær áhorfendur inn í heim á mörkum raunveruleika og ímyndunar á milli þess sem þekktir einstaklingar á borð við Nick Cave og Sigtrygg Baldursson lesa upp úr bréfunum sem bæði plata Emilíönu og myndin byggir á.
Einn af yfirframleiðendum myndarinnar er Anna Hildur Hildibrandsdóttir, fagstjóri skapandi greina við Háskólann Bifröst. Anna Hildur hefur átt náið samstarf við leikstjórana Iain Forsyth og Jane Pollard um árabil, en þau þrjú unnu meðal annars saman að heimildarmyndinni „A Song Called Hate“, sem fjallaði um umdeilda ferð Hatara á Eurovision í Tel Aviv árið 2019 og áhrif þess að taka afstöðu í gegnum listina. Forsyth og Pollard hafa áður getið sér gott orð fyrir myndir á borð við „20,000 Days on Earth“ með Nick Cave og nýverið vöktu þau athygli fyrir myndina „Broken English“, um söngkonuna Marianne Faithfull, sem frumsýnd var á Kvikmyndahátíðinni í Feneyjum og fer í almenna dreifingu á næsta ári.
Myndin „Hin einstaka fröken Flower“ er sýnd í Bíó Paradís.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta