29. ágúst 2023

Aðsókn með allra mesta móti

Alls hófu 343 nýnemar göngu sína við Háskólann í Bifröst í síðustu viku, er haustönn skólaársins 2023-24 hófst. Um svipað leyti á síðasta ári voru nýnemar 263 talsins og nemur fjölgunin á milli ára því ríflega 30 af hundraði.

Ef litið er til einstakra háskóladeilda, þá fjölgaði nemendum hlutfallslega mest í viðskiptadeild, bæði í grunnnámi og meistaranámi. Umtalsverð fjölgun átti sér einnig stað í meistaranámi við félagsvísindadeild. Það gerir að verkum að í fyrsta sinn er fjöldi grunn- og meistaranema áþekkur við háskólann. Fjölgun grunnnema við félagsvísindadeild annars vegar og lagadeild hins vegar nemur 10-15%.

Þá telst háskólagátt HB einnig á meðal hástökkvara ársins, en við hana var hlutsfallsleg aukning hvað mest á milli ára í íslenskukennslu sem annað mál.

Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor, fagnar að vonum þessari þróun, sem felur í sér eina þá  mestu aukningu sem orðið hefur í aðsóknartölum Háskólans á Bifröst á milli ára um langt skeið.

„Það er alltaf ánægjulegt að sjá tveggja stafa plústölu þegar aðsóknartölur eru gerðar upp í byrjun skólaárs. Þegar aukningin nemur ríflega þriðjungi er mér þó þakklæti fyrst og fremst í huga, þakklæti bæði til þeirra sem völdu Háskólann á Bifröst og starfsfólksins okkar sem borið hefur hróður háskólans okkar út með þessum góða árangri.“

Þá styður þessi þróun jafnframt, að mati Margrétar, þá sókn sem fjarnám hefur verið í. „Þær miklu framfarir sem við höfum séð verða í fjarnámi, bæði hvað tæknistig og -notkun varðar, boðar að mörgu leyti byltingu hvað aðgengi að háskólanámi varðar óháð búsetu og atvinnuþátttöku. Eru þá ótalin jákvæð áhrif fyrir t.d. byggðarþóun og kolefnisfótspor menntunar hér á landi, svo að fátt eitt sér nefnt.“

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta