Frá útskriftarhátíðinni í dag í Hriflu.

Frá útskriftarhátíðinni í dag í Hriflu.

18. febrúar 2023

130 nemendur brautskráðir

Blað var brotið í sögu Háskólans á Bifröst í dag er fyrsti árgangurinn í áfallastjórnun var brautskráður. Þá var einnig veitt fyrsta BA gráðan í skapandi greinum við háskólann. Aldrei hafa fleiri nemendur verið skráðir til náms við háskólann, en þeir eru nú á ellefta hundrað.

Útskriftarathöfnin fór fram í Hriflu, aðalsal háskólans og voru samtals 131 nemandi útskrifaður. Konur voru í nokkrum meirihluta á meðal brautskráðra eða 92 talsins. Grunnnemar voru 69 talsins en fjöldi brautskráðra meistaranema nam 61. Útskriftarhópurinn skiptist að öðru leyti þannig að við Félagsvísindadeild luku samtals 28 nemendur námi, við lagadeild 15 og viðskiptadeild 88. 

Þá fluttu fulltrúar grunnnema og meistaranema hverrar háskóladeildar ávarp. Dúxar hvers árgangs í grunn- og meistaranámi hlutu útskriftarverðlaun og afreksnemar í grunnnámi fengu skólagjöld á milli anna niðurfeld. Nánari upplýsingar um verðlaunahafa eru veittar á vef háskólans, bifrost.is.

Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, hrósaði útskriftarefnum í ávarpi sínu fyrir frábæran árangur og hvatti þau síðan til frekari dáða. Helsta markmið háskólans væri að mennta ábyrga leiðtoga sem láta muna um sig í lífinu.

„Það getið þið gert með því að vera ábyrgir og ástríkir foreldrar eða börn, vera ábyrgir þjóðfélagsþegnar, sinna starfinu ykkar vel eða stofna fyrirtæki. Velgengni okkar er ekkert endilega fólgin í metorðum heldur einungis því að gera vel það sem við tökum að okkur og láta ávallt gott af okkur leiða.“

Einnig vék rektor í ávarpi sínu að sérstöðu Háskólans á Bifröst sem leiðandi menntastofnunar í stafrænu fjarnámi. Mikil sóknarfæri blasi hvarvetna við hjá háskólanum í þeim efnum, enda feli stafræn þróun í sér einn helsta vaxtarsprota íslenska menntakerfisins til næstu ára litið. Að eftirspurn sé til staðar eftir gæðafjarnámi á háskólagstigi megi m.a. lesa úr ört vaxandi aðsóknartölum við háskólann. Fjöldi nemenda hafi aldrei verið meiri frá stofnun hans eða á ellefta hundrað. Hlutfallslega hafi aukningin verið mest í meistaranámi.

Af nýjungum í námsframboði nefndi rektor háskólagátt á ensku, sem gefur fólki með annað mál en íslensku að móðurmáli kost á að ljúka framhaldsskólanámi. Þá fagnaði rektor því að fyrsti árgangurinn í áfallastjórnun væri að útskrifast frá Háskólanum á Bifröst og fyrsti nemandinn í skapandi greinum að ljúka BA námi. Þá kallaði rektor eftir leiðréttingum frá ríkinu á ríkisframlögum til háskólanna, en þar beri Háskólinn á Bifröst skertan hlut frá borði í samanburði við framlög til annarra háskóla.

„Hér við Háskólann á Bifröst er ekki bruðlað og þegar við sáum þessar tölur svart á hvítu þá hugsuðum við um kraftaverkið þegar Jesús braut brauðið og fæddi fjöldann.“

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta