Stefna um opinn aðgang

Háskólinn á Bifröst hefur markað þá stefnu að sem flestir geti notið afurða þess vísindastarfs sem unnið er af akademískum starfsmönnum við skólann. Til þess að svo megi verða samþykkja akademískir starfsmenn skólans að leitast við að birta fræðigreinar sínar í opnum aðgangi, annað hvort í gegnum tímarit sem gefin eru út í opnum aðgangi eða með safnvistun. Þá heimilar sérhver akademískur starfsmaður háskólanum að gera vísindagreinar ritaðar af honum aðgengilegar og vista þær í opnum gagnagrunnum s.s. Opin vísindi (opinvisindi.is) sem er sérstakt varðveislusafn íslenskra háskólabókasafna fyrir slíkar greinar. Gildir þetta um allar vísindagreinar ritaðar af starfsmanninum, einum eða með fleiri höfundum, á þeim tíma sem hann er ráðinn til Háskólans á Bifröst

Undanskildar eru bækur, kennsluefni, skýrslur, álitsgerðir eða annað efni en fræðigreinar sem birtast í vísindatímaritum.

Rektor eða þar til bær fulltrúi rektors munu undanskilja einstakar vísindagreinar frá samþykktinni, eða seinka birtingu þeirra um tiltekinn tíma, óski viðkomandi starfsmaður þess skriflega.

Sérhver akademískur starfsmaður afhendir án endurgjalds rafræna útgáfu af lokaútgáfu höfundar af greinum sínum, ekki seinna en á útgáfudegi, til bókasafns skólans á viðeigandi formi (svo sem PDF) samkvæmt leiðbeiningum safnsins.

Bókasafn skólans getur gert greinina opinbera í rafrænu gagnasafni með opnum aðgangi. Rektor úrskurðar í ágreiningsmálum sem upp kunna að koma. 

 

Yfirfarið á fundi í Háskólaráði 15. maí 2019

Gildir frá 1. ágúst 2019

Staðfest af rektor 4. júní 2019