Jafnréttisáætlun 2025-2028

Markmið Háskólans á Bifröst með gerð jafnréttisáætlunar eru að jafna aðstöðu kynjanna innan háskólans, m.a. hvað varðar laun og önnur starfskjör, þátttöku í stjórnun og aðstöðu og tækifæri til náms. Jafnréttisáætlun hefur það meginmarkmið að koma í veg fyrir mismunun vegna kyns, kyngervis, fötlunar, aldurs, trúar, skoðana, þjóðernis, kynþáttar eða kynhneigðar. Skólinn kemur til móts við mismunandi þarfir starfsfólks og nemenda eins og eðlilegt getur talist.

Áhersla er lögð á jafnrétti í víðum skilningi, ásamt samtvinnun ólíkra vídda jafnréttis. Háskólinn á Bifröst hefur sett sér það markmið að vera til fyrirmyndar í íslensku samfélagi og styrkja jafnréttis- og lýðræðisvitund til að mæta áskorunum fjölmenningarsamfélags nútímans.

Lög sem liggja til grundvallar

Jafnréttisáætlun Háskólans á Bifröst byggir á lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynja. Hún tekur einnig mið af jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár Ísland nr. 33/1944, sbr. lög nr. 97/1995; lögum
nr. 85/2018 um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna; lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði og tekur mið af ákvæðum laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, Sáttmála SÞ um réttindi fatlaðs fólks og lögum nr. 80/2019 um kynrænt sjálfræði. Jafnframt tekur áætlunin mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, einkum því fjórða (menntun fyrir öll) og fimmta markmiðið (jafnrétti kynjanna). Háskólinn gætir þess að allt starfsfólk, óháð kyni, fái jöfn laun og njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf (sbr. 6.gr. laga nr. 150/2020 og 9.gr. laga nr. 86/2018).


Framkvæmd

  • Háskólinn á Bifröst hefur gert sérstaka viðbragðsáætlun um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi er skoðast sem hluti af jafnréttisáætlun háskólans. Þar er kveðið á um sérstakt fagráð sem fjallar um kvörtunarmál og á heimasíðu háskólans er aðgengilegt að koma kvörtunum á framfæri.
  • Forvarnaráætlun er jafnframt í gildi sem fjallar um aðgerðir til að draga úr líkum á því að mál sem varða kynbundna og kynferðislega áreitni og ofbeldi komi upp. 
  • Hver sá sem tekur við kvörtun eða tilkynningu um brot skal umsvifalaust vísa erindinu til fagráðsins til faglegrar meðferðar.
  • Háskólinn á Bifröst tryggir að allt nýtt starfsfólk fái kynningu á jafnréttisáætlun og verklagsreglum
    um viðbrögð við kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi og ætlunin er að starfsfólk þurfi að staðfesta móttöku þess. Háskólinn tryggir ennfremur að allir nýnemar munu fá kynningu á jafnréttisáætlun og verklagsreglum um viðbrögð við kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi.
  • Háskólinn á Bifröst mun bjóða upp á þjálfun, námskeið og kynningarefni sem varða þekkingu á
    mismunun kynja og kynferðislegri og kynbundinni áreitni/ofbeldi. Þróað verður myndefni og
    kennsluferlar fyrir starfsmenn og nemendur til að nota. Hluti af þessu ferli er þróa fræðsluefni
    varðandi forvarnir gegn stafrænu ofbeldi og kynna starfsfólki og nemendum á skilvirkan hátt.

Laun og önnur starfskjör

  • Háskólinn á Bifröst hefur sett sér sérstaka launastefnu sem er jafnframt hluti af jafnréttisáætlun
    þessari. Við ákvörðun launa skal þess gætt að ekki sé mismunað sbr. lögum 150/2020 um jafna
    stöðu og jafnan rétt kynjanna. Jöfn laun og sömu kjör skuli gilda í hvívetna fyrir sömu eða
    jafnverðmæt störf. Í ráðningarsamningum er ekki gerð krafa um trúnað varðandi launakjör.
  • Ráðningar innan skólans skulu endurspegla vilja hans til að jafna stöðu kynjanna innan hverrar rekstrareiningar og deildar. Verði tveir eða fleiri taldir jafnhæfir til starfs, skal sá valinn til starfsins sem er af því kyni sem er í minnihluta á umræddu starfssviði innan skólans. Þegar störf eru auglýst, skal tekið fram að við ráðningar sé tekið mið af jafnréttisáætlun. Fjölbreytni hvað varðar kyn og kyngervi þeirra sem skipa dómnefndir til hæfnismats er ávallt gaumgæfð ríkulega.
  • Við úthlutanir á verkefnum eða ákvörðunum um starfsaðstæður skulu næstu yfirmenn gæta þess að ekki eigi sér stað mismunun sbr. markmið jafnréttisáætlunar.
  • Komið er til móts við starfsfólk varðandi samhæfingu starfs og fjölskyldulífs. Enn fremur skulu
    næstu yfirmenn taka tillit til þarfa starfsfólks með sveigjanleika varðandi fjarvinnu og fjarfundi.
  • Við úthlutanir úr Fræðslusjóði vegna endurmenntunar, námskeiða og ráðstefnuferða og úr
    Rannsóknasjóði vegna styrkja til rannsókna skulu stjórnir sjóðanna gæta þess að þeir nýtist öllum
    í starfsliði hákólans, óháð persónulegum aðstæðum þeirra eða stöðu.
  • Háskólinn á Bifröst starfrækir jafnlaunakerfi í samræmi við kröfur sem settar eru fram
    í staðlinum ÍST 85:2012. Vottunarskírteini vegna jafnlaunavottunar gildir frá 2024 - 2027.
    Jafnlaunavottun skal endurnýja á þriggja ára fresti og verður henni viðhaldið eins og kveðið er á
    um í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020. Með virkri jafnlaunavottun skal
    tryggt að þeim lögum sé jafnan fylgt í launasetningu.

Þátttaka í stjórnun

  • Við skipan í stjórnir, ráð og nefndir á vegum skólans skal leitast við að hafa kynjahlutfall sem jafnast.
  • Sé leitað eftir tilnefningum af skólans hálfu í stjórnir, ráð og nefndir, skal lögð áhersla á fjölbreytni í tilnefningum og horft til kynjahlutfalls eins og við verður komið.
  • Jafnréttisnefnd skal í maí ár hvert safna gögnum um kynjahlutfall í stjórnum, nefndum og ráðum fyrir liðið háskólaár. 

Framkvæmd og ábyrgð

  • Framkvæmd einstakra þátta jafnréttisáætlunar er á ábyrgð rektors nema annað sé tekið
    sérstaklega fram. Áætlunin nær til alls starfsfólks sem í sameiningu bera ábyrgð á að koma í veg
    fyrir mismunun og leggja sitt af mörkum til að skapa háskólasamfélag sem einkennist af
    virðingu, skilningi og umburðarlyndi.
  • Jafnréttisnefnd er kjörin af háskólaráði eftir tilnefningum og skulu þar sitja þrír aðilar, einn
    fulltrúi starfsfólks, einn fulltrúi nemenda og formaður, tilnefndur af rektor. Jafnréttisnefnd fylgist
    með framgangi jafnréttisáætlunar og skal fyrir lok febrúar ár hvert gera grein fyrir störfum sínum
    með skýrslu til rektors og háskólaráðs. Skýrsla nefndarinnar skal gerð samhliða reglubundinni
    rýningu stjórnenda vegna jafnlaunavottunar. Jafnréttisáætlun skal endurskoðuð af jafnréttisnefnd
    að undangenginni umræðu í háskólaráði eigi síðar en þremur árum eftir gildistöku.
  • Háskólinn á Bifröst setur sér aðgerðaáætlun til að framfylgja jafnréttisáætlun þessari.
  • Mannauðsstjóri Háskólans á Bifröst heldur utan um framkvæmd og eftirlit áætlunarinnar.  Áætlun
    þessi er vistuð inn á innri vef háskólans og í skjalakerfi hans.

Prentvæn útgáfa

Jafnlaunastefna


Jafnréttisáætlun þessi er uppfærsla á jafnréttisáætlun sem tók gildi 1. ágúst 2021

Yfirfarið á fundi í jafnréttisnefnd 21.02.2025

Yfirfarið í framkvæmdastjórn 25.03.2025

Yfirfarið á fundi í Háskólaráði 03.04.2025

Gildir frá 03. 04 2025

Næsta endurskoðun fer fram á árinu 2028

Staðfest af rektor 03.04.2025