Gæðastefna

Háskólinn á Bifröst leggur áherslu á öflugt og umbótamiðað gæðastarf sem tekur til allrar starfsemi skólans. Gæðastarfinu er ætlað að hámarka gæði náms, kennslu og rannsókna við háskólann með það að markmiði að bjóða nemendum, kennurum og starfsfólki upp á lærdómssamfélag sem mætir íslenskum og alþjóðlegum gæðakröfum sem og að tryggja gæði prófgráða frá Háskólanum á Bifröst. Gæðakerfið á að taka mið af og leitast við að uppfylla kröfur sem gerðar eru til ytra og innra mats háskóla. Gæðastarfið skal vera opið, gegnsætt og einkennast af gagnrýnum og framsýnum viðhorfum. Gæðakerfið felur í sér viðleitni til úrbóta og skal stöðugt vera í endurskoðun og framþróun. 

Háskólinn á Bifröst leggur áherslu á að taka mið af og mæta í hvívetna innlendum og alþjóðlegum gæðakröfum sem gerðar eru til háskóla, þar á meðal þeim kröfum sem felast í þátttöku í evrópska háskólasvæðinu, European Higher Education Area. Gæðakerfi Háskólans á Bifröst tekur þannig mið af leiðbeiningum sem settar eru fram í ritinu Standards and Guidelines for Quality Assurance in the European Higher Education Area. Háskólinn á Bifröst styður eindregið rammaáætlun um eflingu gæða á sviði æðri menntunar á Íslandi og störf Gæðaráðs íslenskra háskóla og leggur áherslu á að taka virkan þátt í samstarfi háskóla á sviði gæðamála, m.a. á vettvangi ráðgjafanefndar Gæðaráðsins. Mikilvægur þáttur í gæðastarfi Háskólans á Bifröst er sjálfsmat á skólanum sjálfum og fagsviðum hans sem skal vera opinskátt, ígrundað og reist á staðreyndum.

Gæðahandbók Háskólans á Bifröst felur í sér lýsingu á gæðakerfi skólans, afmörkun verkefna og ábyrgðar, verklagsreglur og leiðbeiningar sem móta starf skólans um nám, kennslu, rannsóknir og aðra helstu þætti í starfsemi hans. Gæðahandbókin skal sæta reglubundinni endurskoðun í samræmi við það markmið skólans að gæðastarf á vettvangi hans sé stöðugt og umbótamiðað. Skjalastjóri varðveitir skjöl í gæðahandbók og samræmir útlit þeirra til birtingar á vef Háskólans á Bifröst.

Rektor Háskólans á Bifröst ber ábyrgð á gæðamálum skólans. Háskólinn á Bifröst leggur áherslu á að tryggja virka þátttöku nemenda í innra gæðastarfi skólans. Deildarráð og gæðastjóri bera ábyrgð á gæðastjórnun háskólans gagnvart rektor og skulu tryggja að skólinn starfi í samræmi við eigin og ytri gæðakröfur. Framkvæmdastjórar bera ábyrgð á gæðum þjónustu og annarrar starfsemi skólans gagnvart rektor.

 

Yfirfarið á fundi í Háskólaráði 15. maí 2019

Gildir frá 1. ágúst 2019

Staðfest af rektor 4. júní 2019