29. apríl 2022

„Geimferðir eru dómkirkjur 21. aldarinnar“

Út er kominn þriðji þáttur Hriflunnar, hlaðvarpi félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst. Ekki er ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur, frekar en í fyrri hlaðvörpum. Fjórða iðnbyltingin, hlutfallsleg tekjuskiptingarþróun og þær pólitísku og siðferðilegu áskoranir sem takast verður á við samhliða aukinni sjálfvirknivæðingu og fækkun hefðbundinna starfa, er á meðal viðfangsefna í þættinum.

Þessa áleitnu þróun nálgast þáttastjórnandinn m.a. út frá hinni umtöluðu Lakner-Milanovic fíla- kúrfu, sem sýnir hlutfallslega tekjuskiptingarþróunar á heimsvísu á árinum 1988 til 2008. Þá er einnig litið til þess, hvaða breytingar fjórða iðnbyltingin kallar á innan menntakerfisins, ekki hvað síst hjá háskólum, auk þess sem ýmsar birtingarmyndir í efnahags- og tekjuþróun hér á landi eru ræddar, s.s. í tengslum við húsnæðismarkaðinn.

Viðmælendur Magnúsar Skjöld í þættinum eru þau Gunnar Haraldsson, hagfræðingur og framkvæmdastjóri, Hanna Kristín Skaftadóttir, lektor og fagstjóri í viðskiptagreind við viðskiptadeild Háskólans á Bifröst og Kristrún Frostadóttir, alþingismaður.

Einn áleitnasti hluti 4. iðnbyltingarinnar er hvort hún verði til þess að dýpka enn frekar tekjugjánna sem er að myndast á milli hinna fáu ofsaríku og hins efnaminni fjölda. Séu þeir ríku sífellt að verða ríkari á kostnað millitekju- og lágtekjufólks, þá vekur það jafnframt upp spurningar um hvort og þá hvernig grípa eigi í taumana.

Á hinn bóginn eru svo þeir sem benda á að umræðunni hætti til að einfalda hlutina um of, með þeim afleiðingum að sú dýnamíska þróun sem er að eiga sér stað í atvinnu- og efnahagslífinu nái illa eða ekki upp á yfirborðið.

Margt geti þannig bent til þess, að þróunin á næstu árum og áratugum liggi engan veginn ljós fyrir. Ekki sé allt sem sýnist enda þótt útlínur og veiki hlekkir í efnahagsþróuninni séu sýnilegir. Eða eins og einn viðmælendanna, Gunnar Haraldsson, bendir á, þá eru dómkirkjur miðalda enn reistar á Vesturlöndum, reyndar en ekki í granít og marmara heldur geimferjum.

Þessi skemmtilega tilvitnun,  er vel að merkja aðeins eitt dæmi af mörgum um áhugaverða umræðu 3. þáttar Hriflunnar, hlaðvarpi sem óhætt er að mæla með.

Nálgast má 3. þátt Hriflunnar á Youtube ásamt öllum helstu hlaðvarpsveitum.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta