Yfir fimmtíu ungmenni komu saman í vinnusmiðju á Bifröst 13. febrúar 2019

Yfir fimmtíu ungmenni komu saman í vinnusmiðju á Bifröst

Föstudaginn áttunda febrúar síðastliðinn var haldin vinnusmiðja fyrir ungmenni úr Borgarfirði hér á Bifröst. Áttunda til tíunda bekk allra grunnskóla svæðisins var boðið sem og nemendum úr Menntaskóla Borgarfjarðar. Alls komu yfir fimmtíu ungmenni til að taka þátt. Skipulag vinnusmiðjunnar var tvíþætt, fyrst fengu krakkarnir kynningu á frumkvöðlafræði, nýsköpun og gerð viðskiptaáætlana frá Bárði Erni Gunnarssyni og Georgi Kristinssyni. Að því loknu fengu þau að spreyta sig við að koma sinni eigin hugmynd að fyrirtæki niður á blað og þróa viðskiptaáætlun undir dyggri leiðsögn Georgs og Bárðar. Allir hóparnir fengu frábærar hugmyndir, meðal þeirra hugmynda sem komu fram var nýtt smáforrit sem auðveldar lestur, opinn bóndabær þar sem ferðamenn geta fengið að taka þátt í bústörfunum og nýtt forrit sem hægt er að nota við kennslu á öllum skólastigum.

Þegar vinnu við viðskiptaáætlanirnar var lokið tók Sirrý við keflinu og kynnti fyrir nemendunum undirstöðuatriðin í öruggri framkomu og tjáningu. Allir hóparnir fengu möguleika á að koma upp á svið og kynna sína viðskiptahugmynd fyrir öllum sem voru viðstaddir. Þá var einnig farið í ýmsar æfingar og leiki sem við koma tjáningu. Í lok dagsins fengu ungmennin að skoða nemendaaðstöðu skólans og fá útrás fyrir uppsafnaða orku eftir langan dag í háskóla.

Verkefnið er hluti af undirbúningi skóladagsins í Borgarbyggð. Þar munu allar skólastofnanir svæðisins koma saman og fagna því blómlega og farsæla skólasamfélagi sem þrífst í sveitarfélaginu. Dagurinn verður haldinn hátíðlegur 30. mars næstkomandi í Menntaskóla Borgarfjarðar og þar verður til dæmis hægt að koma og kynna sér hugmyndir krakkanna frá vinnudeginum á Bifröst.

 

Myndasafn

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta