Ljósmyndin með fréttinni er birt með góðfúslega leyfi MAK, Menningarfélags Akureyrar.
25. janúar 2024Vörður í samstarfi háskólanna
Á sumarönn verður hleypt af stokkunum nýju námskeiði í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst sem nefnist, Rannsóknir á sviði menningar og skapandi greina í Landsbyggðum. Þetta er liður af stærra verkefni sem stutt var af Samstarfssjóði háskólanna árið 2023 og er ætlað að efla rannsóknavirkni á meistara- og doktorsstigi á sviði atvinnulífs menningar og skapandi greina.
Í námskeiðinu verða áhrif menningar og skapandi greina (MSG) í landsbyggðum skoðuð. Samhengi byggða- og menningarstefnu stjórnvalda verður rýnd, fyrirkomulag sóknaráætlana skoðað og farið yfir hlutverk Byggðastofnunar og aðkomu að MSG.
Menning og skapandi greinar (MSG) leika mikilvægt hlutverk í tæknibyltingu og alþjóðavæðingu samtímans. Fræðafólk í Evrópu hefur í auknu mæli beint athygli sinni að mikilvægi staðbundinna áhrifa MSG, ekki síst í landsbyggðum. Samspil MSG og nýsköpunar er einnig í brennidepli þar sem víðtæk samfélagsleg áhrif eru skoðuð samhliða tækniþróun.
Einvala hópur rannsakenda mun koma að kennslu í námskeiðinu þar sem rannsóknir sem gerðar hafa verið eru skoðaðar en einnig litið á þörfina fyrir frekari rannsóknir á þessu sviði.
Námskeiðið er þróað í samstarfi Háskólans á Bifröst við HA og Byggðastofnun. Anna Hildur Hildibrandsdóttir fagstjóri skapandi greina við Háskólann á Bifröst er verkefnastjóri og heldur utan um verkefnið. Aðrir sem komu að því að hanna það eru Erna Kaaber sérfræðingur og Próf. Njörður Sigurjónsson fagstjóri menningarstjórnunar við Háskólann á Bifröst, Sæunn Gísladóttir sérfræðingur við Rannsóknamiðstöð HA og Hanna Dóra Björnsdóttir sérfræðingur á þróunarsviði Byggðastofnunar.
Aðrir samstarfsaðilar eru HÍ og Hagstofa Íslands og stendur fyrir dyrum að þróa námskeið um hagtölu- og hagskýrslulæsi með þeim auk þess sem möguleikar á samstarfi við stofnanir og einkafyrirtæki um stuðning við doktorsrannsóknir verða kortlagðir.
Námskeiðið verður á sumarönn og heldur Háskólinn á Bifröst utan um skráningar. Í þetta fyrsta skipti sem námskeiðið er haldið verður fulltrúum landshlutasamtaka boðið sérstaklega að taka þátt því endurgjöf þeirra er mikilvægur liður í frekari þróun þar sem vonast er til að laða fleiri úr landsbyggðum í rannsóknir. Þátttaka er takmörkuð við 12 manns.
Frekari upplýsingar um námskeiðið og skráningarhlekk er að finna hér.
Frekari upplýsingar um námskeiðið og skráningarhlekk er að finna hér.
Skráningar hefjast 1. febrúar og lýkur 1. mars nk.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta