26. ágúst 2022

Vinsælustu námslínurnar

Hjá  nýnemum vetrarins reyndust skapandi greinar, mannauðsstjórnun og áfallastjórnun vinsælastar. Viðskiptadeild er sem fyrr lang fjölmennasta háskóladeildin.

Liðlega 1.200 nemendur hefja nám við Háskólann á Bifröst nú á haustönn 2022. Er sýnileg fækkun miðað við tvö undangengin skólaár, sem voru hvort af öðru metár í skólasókn, eins og hjá öðrum háskólum landsins. Þá fjölgaði um 80% í háskólagátt á milli ára.

Fjölgun átti sér einnig stað hjá félagsvísindadeild miðað við síðustu ár, samfara aukinni aðsókn í BA nám í Skapandi greinum og MA-MCM meistaranám í Áfallastjórnun.

Meistaranám í forystu og stjórnun í viðskiptadeild er sem fyrr með flestar skráningar á meistarastigi á heildina litið. Tvær áherslur eru í boði í námslínunni eða annars vegar mannauðsstjórnun og verkefnastjórnun og hefur sú fyrrnefnda staðið skrefinu framar í skráningum fram að þessu. Skráningar eru einnig sambærilegar á milli ára í meistaranám í markaðsfræði og BS nám í viðskiptalögfræði, en nokkur fækkun reyndist vera í Miðlun og almannatengsl, reyndar eftir hverja metskráninguna á fætur annarri undanfarin ár.

Síðast en ekki síst fjölgaði skráningum um 80% hjá Háskólagátt Háskólans á Bifröst, en háskólagáttin undirbýr nemendur fyrir grunnnám á háskólastigi. Rekja má aukninguna að hluta til þess að háskólagáttin er einnig í boði á ensku og er hér um einkar jákvæða þróun að ræða í námsframboði fyrir erlent enskumælandi fólk hér á landi.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta