Viðtal: Dr Heather McRobbie er nýráðin dósent hjá félagsvísinda- og lagadeild 3. október 2019

Viðtal: Dr Heather McRobbie er nýráðin dósent hjá félagsvísinda- og lagadeild

Gætir þú sagt okkur aðeins frá þér og þínum ferli?

Auðvitað! Ég er fræðimaður sem hefur einstakan áhuga á stjórnarskrám. Áhuga minn á stjórnarskrám má rekja til þess tíma er ég var í meistaranámi í Bosníu og Hersegóvínu. Þar var Dayton-stjórnarskráin frá 1995 til umræðu dagsdaglega: hún batt enda á stríðið en kallaði líka mörg vandamál yfir bosnísku þjóðina, þá áttaði ég mig á því hversu mikil áhrif stjórnarskrá getur haft á daglegt líf einstaklinga. Ég skrifaði doktorsrannsókn mína um þær stjórnarskrár sem urðu til í eftirmálum Arabíska vorsins 2011 og nú er ég orðin hugfangin af öðrum stjórnarskrám, til dæmis þeirri íslensku. Ég er hálf áströlsk, því eyddi ég síðastliðnu ári í Ástralíu til að kynna mér áströlsku stjórnarskrána, í þeirri vinnu vakti það hjá mér sérstaka athygli hið umdeilda mál sem snýr að viðurkenningu á frumbyggjum Ástralíu og hvernig lög geta verið nýtt til að leiðrétta sögulegt misrétti sem þau hafa orðið fyrir.

Það er hálf kaldhæðnislegt að vera breskur fræðimaður sem sérhæfir sig í stjórnarskrám, þar sem Bretland hefur ekki eiginlega stjórnarskrá (þó að bröltið í kring um Brexit veki upp spurninguna um hvort að Bretland muni loks eignast formfasta stjórnarskrá), þá lærði ég einnig í Ísrael eftir að ég lauk doktorsnámi mínu, en þar er heldur ekki stjórnarskrá. Af þeim sökum hef ég oft spurt mig hvort lönd þurfi í raun stjórnarskrár og hvað þær þýði fyrir íbúa.

Í víðara samhengi þá er ég áhugakona um mannréttindalög, áhrif nýlendustefnunnar og lagaramma í kring um hamfarahlýnun. Ég hef mikinn áhuga á því hvernig hægt er að nýta stjórnarskrár til þess að fást við hlýnun jarðar. Þá er ég líka nörd í geimlögum en ég hef enga formlega menntun á því sviði. Ég varð heilluð af geimnum því að það að sökkva sér í mannréttindabrot og hlýnun jarðar getur tekið á og þá er gott að geta horft til stjarnanna og fá aftur tilfinningu fyrir undrum veraldarinnar, geimkönnun veitir mér von, en við megum heldur ekki nota það sem afsökun til að hlúa ekki að jörðinni.

Fyrir utan starfssviðið þá nýt ég þess að læra ný tungumál, elda, lista og handverks. Ég er þessa stundina að læra að prjóna og sauma, í íslenskum stíl.

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að koma til Íslands? Hvernig upplifun er það hingað til?

Ísland passaði mér fullkomlega á svo marga vegu: Mitt aðal áhugasvið eru stjórnarskrár eftir byltingar og á Íslandi hefur umræðan síðasta áratuginn eftir efnahagshrunið og búsáhaldabyltinguna um hlutverk stjórnarskrárinnar verið mjög áhugaverð (þar sem ég er aðeins byrjandi í umræðu sem er mörgum persónuleg þá geri ég mitt besta til að hlusta á skoðanir Íslendinga á málinu). Ísland er líka fullkomið land til að heimsækja fyrir þá sem hafa áhuga á jafnrétti kynjanna, grænum hvötum og hamfarahlýnun því hér hefur svo margt gerst tengt þessum málaflokkum. Þá er þetta heillandi staður fyrir Breta að heimsækja því hér voru teknar allt aðrar ákvarðanir eftir efnahagshrunið, ég rannsakaði einnig áhrif aðhaldsaðgerða breska ríkisins eftir hrunið og því er Ísland áhugavert samanburðardæmi. En landið varð ekki bara fyrir valinu af fræðilegum ástæðum. Það gæti verið klisja að tala um þetta, en Ísland er einstakt, náttúrufegurðin, eldfjöll og jöklar, fegurð hefðanna sem mótuðust fyrir kristni, Íslendingasögurnar, tungumálið, þetta er einfaldlega ótrúlega heillandi og töfrandi staður. Mér hefur verið tekið með opnum örmum hvert sem ég hef komið og mér finnst ég rétt vera að hefja leiðangur minn um íslenska menningu og sögu, það er svo margt að sjá, lesa og læra! Þá hafa allir lagt mér lið við að læra íslensku, en þar er ég enn rétt að byrja.

Getur þú sagt okkur aðeins um hlutverk þitt á Bifröst og þitt svið í kennslu?

Ég vinn við félagsvísinda- og lagadeildina, þar sem ég fæst aðalega við lögfræði. Ég mun kenna námskeið sem fjalla meðal annars um; alþjóðleg mannréttindalög, stjórnarskrárrétt og aðferðafræði lögfræðinnar (og að sjálfsögðu dreymir mig að kenna um geimlög). Þá kenni ég líka áfanga í félagsvísindareinunum svo sem aðferðafræði í félagsvísindarannsóknum. Það er magnað að vera partur af deild þar sem fræðasviðið er jafn breitt og raun ber vitni, en það spannar félagsvísindagreinarnar og lögfræði, ég hef á tilfinningunni að ég muni læra margt nýtt og hlakka til samstarfsins með nýju fólki.

Hvað myndir þú segja að hafi verið sú upplifun sem hafði mest áhrif á þig?

Ætli það hafi ekki verið rannsókn mín á byltingunni í Egyptalandi. Ég fer varlega í að segja þetta því að ég er ekki Egypti, og ég þykist ekki vera það en ég ber mikla virðingu fyrir egypsku þjóðinni og þeim sem tóku þátt í byltingunni 2011. Hún kenndi mér svo margt um samstöðu og mátt þess að standa saman, en einnig þeim vandkvæðum sem fylgja því að ætla að koma skoðunum fjöldahreyfingar inn í lög og stofnanir. Ég upplifi Cairo sem sjálfstæðan heim, byggðan á fjölbreyttum lögum af sögum, tungumálum og sagnfræði. Ég tek þann lærdóm með mér í alla mína vinnu. Í víðara samhengi þá hefur menntun haft meiri áhrif á líf mitt en neitt annað, staðirnir sem ég hef lært á, fólkið sem ég hitti í námi, bæði þeir sem ég lærði með og þeir sem kenndu mér. Ég á mikið eftir ólært, en ég er fyrst og fremst þakklát fyrir allan minn lærdóm hingað til. 

Þú hefur vald á mörgum tungumálum, þar á meðal arabísku, hvaðan kom hvatinn til að læra hana?

Í hreinskilni sagt þá er ég ekki góð í tungumálum, í raun alls ekki! Ég er ekki altalandi nema á ensku, en ég nýt þess að læra ný tungumál! Það má segja að ég sé í raun bara heltekinn áhugamaður um það að læra ný tungumál frekar en fræðimaður í þeim efnum. Ég byrjaði á að læra frönsku þar sem ég bjó í Montreal í ár þegar ég var 22 og á svipuðum tíma byrjaði ég að læra arabísku. Arabíska var fyrsta tungumálið sem ég varð ástfangin af, þegar maður byrjar að skilja flækjustig uppbyggingarinnar og hversu fjölbreytt afbrigði eru til, þá leið mér eins og ég gæti eytt allri ævinni í að læra tungumálið en samt aldrei skilið það fullkomlega. Síðan þá hef ég líka lært rússnesku og núna er ég að læra íslensku og mandarínsku. Tungumál, eru að mínu mati skilvirkustu lyklarnir til þess að opna nýja heima, ekki bara til þess að eiga samskipti, heldur líka til þess að skipta um hugsunarhátt. Sem dæmi þá kemur það mér sífellt á óvart í vegferð minni að læra mandarínsku, hvernig hægt er að skrifa tungumál án stafrófs. Í íslensku þá er magnað að kynnast orðum sem koma úr heiðnum hefðum eða fornum evrópskum málum, en bera enn merkingu í dag, bæði þau sem hafa haldið merkingu sinni og þeim sem hafa verið endurnýtt í nýjum hlutverkum.   

Hvað getur þú sagt okkur um bókina þína? 

Ég er í raun að vinna að mörgum bókum í einu, ég þarf bara að læra að einbeita mér að einu í einu. Ein af þeim sem er í vinnslu snýr að stjórnarskránum sem gerðar voru í kjölfar arabíska vorsins 2011 og hvernig sé best að skrifa stjórnarskrár eftir byltingar. Þá er ég meðhöfundur bókar um heimskautalög og stefnur, það er vettvangur sem verður æ mikilvægari og á því sviði hef ég lært margt á árinu 2019. Í því samhengi þá er ómetanlegt að vera á Íslandi og geta einbeitt sér að norðurslóðum og þeim stöðugu breytingum sem verða í valdabaráttu á svæðinu. Ég tel að þetta séu mjög tvísýnir tímar fyrir norðurslóðirnar, útkoman gæti haft áhrif á allan heiminn og þess vegna er ég feginn að vera innvinkluð í það samtal.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta