Viðskipti og vísindi 2024
Viðskipti og vísindi er ráðstefna sem Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands gengst árlega fyrir, með það fyrir augum að skapa opinn vettvang fyrir þekkingarmiðlun á sviði viðskipta og tengdra greina. Ráðstefnan er ætluð stjórnendum og starfsfólki úr viðskiptalífinu, stjórnsýslunni og félagasamtökum ásamt rannsakendum og nemendum innan háskólasamfélagsins.
Ráðstefnan fer að þessu sinni fram dagana 11. til 14. mars, aðallega í nokkrum af húsum Háskóla Íslands við Suðurgötu.
Af þeim erindum sem fræðafólk við Háskólann á Bifröst stendur að má nefna, að Haukur Logi Karlsson, dósent við lagadeild og Stefan Wendt, deildarforseti viðskiptadeildar, taka þátt í málstofunni Fjármál, hagfræði og lög. Erindi Hauks Loga nefnist Andi valds í réttarvörslu samkeppnislaga á vinnumörkuðum. Þá er Stefan meðhöfundur með Björgu Jónsdóttur að erindi sem nefnist Aðgerðir stjórnvalda til að auka sjálfbærar fjárfestingar.
Stefan Wendt á svo einnig hlut að málstofu um Sjálfbærni, stefnu og skipulag sem meðhöfundur að erindinu Sjálfbærniskýrslur, stjórnarhættir fyrirtækja og skipulagsheildir ásamt Árna Valgarði Claessen og Þresti Olaf Sigurjónssyni.
Jón Snorri Snorrason, dósent við viðskiptadeild, tekur einnig þátt í þessari málstofu sem meðhöfundur að erindinu Endurskoðun og sjálfbærniskýrslur ásamt Einari Guðbjartssyni og Eyþóri Ívari Jónssyni.
Þá taka ásamt Guðrúnu Hörpu Atladóttur þeir Brynjar Þór Þorsteinsson, lektor og Ragnar Már Vilhjálmsson, aðjúnkt við viðskiptadeild, þátt í málstofunni Markaðsfræði og þjónustustjórnun og nefnist erindi þeirra Viðbrögð við þjónusturofi - árangursrík meðhöndlun kvartana hjá fyrirtækjum í áskriftarþjónustu.
Jón Snorri tekur síðan, líkt og Stefan, þátt í tveimur málstofum, en hann flytur erindi sem nefnist Samruni skipulagsheilda - hvar eru samlegðaráhrifin? í málstofu sem er helguð umfjöllun um stjórnun og stjórnarhætti. Er það jafnframt síðasta málstofa ráðstefnunnar.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta