Verkefnastjórnun DT.Uni fór fram á Bifröst
Nýverið fór fram fundur verkefnisstjórnar Erasmus+ verkefnisins DT.Uni á Bifröst. Verkefnisaðilar eru sjö háskólar víðsvegar að úr Evrópu og er markmið hópsins að innleiða aðferðir hönnunarhugsunar (e. Design Thinking) í starf háskóla, meðal nemenda, stjórnenda og akademískra starfsmanna.
Á þeim tveim árum sem liðin eru síðan verkefnið hófst hafa handbækur og kennsluefni verið þróað og tvær stórar vinnustofur hafa farið fram, sú fyrri í Dresden í Þýskaland og sú síðari í Birmingham, Englandi.
Á næstu vikum verða þær handbækur sem nú eru í þróun, gerðar aðgengilegar á vef verkefnisins, og í kjölfarið munu fara fram vinnustofur á Íslandi þar sem þátttakendur fá þjálfun í að beita aðferðum hönnunarhugsunar við að þróa lausnir við áskorunum sem háskólasamfélagið stendur frammi fyrir. Vinnustofurnar verða opnar áhugasömum þátttakendum úr öllum háskólum á Íslandi. Frekari upplýsingar um skráningu og þátttöku í vinnustofum munu birtast á vef Háskólans á Bifröst á næstu vikum.
Verkefnið er leitt áfram af Háskóla Maria Curie-Skłodowska frá Lublin Póllandi, í samstarfi við Háskólann í Amsterdam, Hagfræðiháskólann í Bratislava, Háskólann í Guarda, Háskólann í Róm, Tækniháskólann í Dresden, City University of Birmingham og Háskólann á Bifröst.
Hægt er að nálgast útgefið efni verkefnisins hér og ýmsar fréttir og fróðleik má finna á þessari Facebook síðu.
Verkefnið DT.Uni er stefnumiðað samstarfsverkefni á háskólastigi, fjármagnað af styrk frá Erasmus+ áætlun Evrópusambandins.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta