Verðlaunafrumkvöðull frá Háskólanum á Bifröst 21. nóvember 2017

Verðlaunafrumkvöðull frá Háskólanum á Bifröst

 
Asco Harvester ehf. er fjölskyldufyrirtæki sem hlaut Frumkvöðlaverðlaun SSV árið 2017. Aðstandendur fyrirtækisins eru systkinin Anna Ólöf, Ingvar Arndal og Ómar Arndal Kristjánsbörn. Fyrirtækið var stofnað um þróun á sjávarslátturvélinni Asco og hefur verkefnið hlotið styrki m.a. úr Tækniþróunarsjóði, Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka, Atvinnumálum kvenna og Uppbyggingarsjóði Vesturlands.
 
Einn aðstandenda verkefnisins er Anna Ólöf Kristjánsdóttir. Hún útskrifaðist úr meistaranámi til MS gráðu í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst í júní fyrr á þessu ári. Anna Ólöf er Bifrestingur í húð og hár en hún hóf skólagöngu sína við Háskólann á Bifröst veturinn 2010 - 2011 með því að taka Mátt Kvenna, rekstrarnám fyrir konur. Í kjölfarið ákvað Anna að flytja á Bifröst og hefja nám við frumgreinadeild skólans (nú Háskólagátt) og útskrifaðist vorið 2012. Um haustið hóf hún svo nám til BS gráðu í viðskiptafræði við Háskólann á Bifröst. Í grunnnáminu ákvað Anna að skrá sig í skiptinám og í kjölfarið flutti hún og dætur hennar til Huelva á Spáni. Þar var námið byggt upp með námskeiðum frá Háskólanum á Bifröst og Universidad de Huelva í bland. Skiptinámið þótti henni frábær viðbót við námið á Bifröst en hún tók í beinu framhaldi þátt í tveimur erlendum verkefnum á vegum Háskólans á Bifröst, Innomarathon í Budapest og Nordplus í Finnlandi.
 
„Það að geta tekið þátt í verkefnum með nemendum frá ólíkum löndum og vinna við aðrar aðstæður en maður er vanur hérna heima, er dýrmæt reynsla og margt sem ég sá og lærði nota ég í minni vinnu í dag“ segir Anna Ólöf.

Stofnun Asco Harvester

Anna útskrifaðist úr grunnnáminum í febrúar 2015 og þá skráði sig í kjölfarið í nám til MS gráðu í forystu og stjórnun. Á sama tíma og hún hóf meistaranámið stofnuðu þau systkinin Asco Harvester. Fyrir Asco hafði Anna enga reynslu af heimi frumkvöðlafyrirtækja og hvernig ætti að bera sig að við stofnun slíkra félaga. Í ljós kom að meistaranámið féll einkar vel að allri vinnslu í kring um stofnun fyrirtækisins. Flest verkefni í náminu voru nokkuð raunhæf og veitt gott svigrúm til að þróa eigin hugmyndir samhliða þeim. Alveg frá byrjun vann hún verkefni í náminu raunhæft og náði að tengja þau við stofnunina t.d. með því að vinna viðskipta- og rekstraráætlanir og undirbúa umsóknir um styrki. Þannig fékk hún dýrmæta innsýn bæði samnemenda og kennara á margt í ferlinu sem hægt var að nýta til framdráttar verkefninu.

Framsetning kynningarefnis og umsóknir styrkja hafa vakið sérstaka athygli

Í náminu við Háskólann á Bifröst var lagt mikið upp úr upplýsingatækni, framsetningu á verkefnum og öguð vinnubrögð. Anna segir að það hafi verið mjög mikilvægt í öllu ferlinu að koma hugmyndinni vel og skilmerkilega frá sér. Kynningarefni og umsóknir sem hún hefur sent frá sér í tengslum við vinnslu verkefnisins hafa vakið sérstaka athygli vegna góðrar framsetningar. Kynningarefnið var unnið í samstarfi við hönnunarstofuna Jökulá en það fyrirtæki er rekið af samferðafólki Önnu úr náminu við Háskólann á Bifröst.
 
Tengsl stofnunar Asco Harvester við meistaranámið gerðu Önnu kleift að fá ráðgjöf beint í æð og stuðning frá kennurum skólans. Þannig gat hún sótt í þekkingar- og reynslubrunn þeirra á öllum stigum verkefnisins. Viðkomandi kennarar voru ávallt tilbúnir að aðstoða, leiðbeina og gefa álit. Anna segir þá hjálp ómetanlega og er hún enn í dag í sambandi við nokkra þeirra sem fylgjast með verkefninu. Að endingu ákvað Anna að skrifa meistararitgerð sína sem raunhæft verkefni um Asco Harvester og mun sú vinna nýtast lengi fyrir áframhaldandi áætlunarvinnu fyrirtækisins.
 
,,Að hafa tekið þá ákvörðun að halda áfram á Bifröst og skrá mig í forystu og stjórnun var góð ákvörðun. Ég er alltaf að sjá það betur og betur hvað það er margt sem ég tileinkaði mér í náminu sem er að nýtast mér vel í þeim verkefnum sem ég tekst á við í dag“, segir Anna að lokum.
 
Meistaranám í forystu og stjórnun er fjölbreytt og krefjandi nám sem ætlað er að undirbúa nemendur undir forystu- og stjórnunarstörf, veitir nemendum hagnýta þekkingu á viðfangsefninu og dýpkar skilning þeirra og fræðilegan grunn. Hefur námið vakið verðskuldaða athygli og verið ein fjölmennasta námsbrautin við Háskólann á Bifröst til þessa.
 
Námið fer allt fram í fjarnámi og geta nemendur stýrt hraða sínum í gegn um námið sem gerir það að verkum að það hentar mjög vel með vinnu. Nánari upplýsingar um námsbrautina má finna hér. Opnað hefur verið fyrir skráningar í meistaranám í forystu og stjórnun og er umsóknarfrestur til 10. desember.
 

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta