13. ágúst 2025

Velkomin til starfa

Audrone Gedziute er nýr rannsóknafulltrúi við Háskólann á Bifröst. Hún er með BA-gráðu í enskri málfræði, MA-gráðu í enskum málvísindum og doktorsgráðu í hugvísindum frá háskólanum í Vilnius í Litháen.

Hún hefur mikla reynslu af háskólakennslu og vinnu í stjórnsýslu, en hún hefur starfað sem fyrirlesari og við stjórnun í háskóla í Litháen, þá hefur hún einnig tekið þátt í rannsóknarverkefnum og verkefnum sem tengjast námsgæðum og hönnun námsbrauta.

Fræðilegt áhugasvið hennar beinist aðallega að miðaldabókmenntum, menningarlegum tengslum og trúarbrögðum í Evrópu fyrir kristnitöku. Auk þess hefur hún mikinn áhuga á bókmenntum, handverki og miðalda matargerð.  

Audrone kom til Íslands árið 2020 til að læra miðaldafræði við Háskóla Íslands. Eins og áður segir hefur hún áhuga á miðalda matargerð og getum við átt von á að hún beri á borð snakk með skrýtnu bragði frá miðöldum, til að prófa hvernig miðaldabragð af mat aðlagast nútíma bragðskyni :)  

Við bjóðum Audrone hjartanlega velkomna til starfa.