Velkomin til starfa
Gréta Bergrún Jóhannesdóttir hefur verið ráðin sérfræðingur við Rannsóknasetur byggða- og sveitarstjórnarmála við Háskólann á Bifröst.
Gréta Bergrún lauk doktorsgráðu í félagsfræði frá Háskólanum á Akureyri í júní síðastliðnum og fjallaði doktorsverkefnið hennar um félagslegt taumhald slúðurs og áhrif þess á búferlaflutninga og ungar konur. Þá lauk hún BA gráðu sinni í fjölmiðlafræði einnig við Háskólann á Akureyri en meistaragráðu í kynjafræði við háskólann í Lundi í Svíþjóð.
Gréta Bergrún hefur víðtæka þekkingu og reynslu af sérfræðistörfum á sviði byggða- og sveitarstjórnarmála, m.a. sem sérfræðingur á rannsóknarsviði hjá Þekkingarneti Þingeyinga, en þar sinnti hún um langt árabil byggðarannsóknum, evrópuverkefnum, og verkefnum fyrir sveitarfélög er sneru að atvinnu- og nýsköpun. Þá hefur hún sinnt kennslu og rannsóknum við Háskólann á Akureyri síðastliðin fimm ár.
Gréta Bergrún er fædd og uppalin í Þistilfirði. Hún býr og starfar á Þórshöfn á Langanesi með vinnuaðstöðu í Kistunni, atvinnu- og nýsköpunarsetri, en sérfræðingsstarfið við rannsóknasetrið er án staðsetningar. Hún tekur nú við sérfræðingsstarfinu af dr. Bjarka Þór Grönfeldt, sem hvarf í vor sem leið til annarra starfa hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og eru honum þökkuð vel unnin störf hjá rannsóknsóknasetrinu.
Við bjóðum Grétu Bergrúnu velkomna til starfa.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta