Vel heppnað námskeið í Sierra Leone
Dr. Bjarki Þór Grönfeldt hefur undanfarnar tvær vikur dvalið í Sierra Leone á vegum Háskólans á Bifröst og Aurora velgjörðarsjóðs, sem stendur fyrir ýmsum þróunarsamvinnuverkefnum í Sierra Leone.
Aurora heldur m.a. úti námskeiðum fyrir ungt fólk í Sierra Leone, sem langar að auka hæfni sína á ýmsum sviðum með það fyrir augum að skapa eigin atvinnutækifæri.
Fengu Háskólinn á Bifröst og Aurora styrk frá utanríkisráðuneytinu til að senda einn akademínskan starfsmann utan sem héldi tveggja vikna námskeið í gerð spurningakannanna og hagnýtri tölfræði. Mikil aðsókn var í námskeiðið, sem Bjarki sá um að halda og komust færri að en vildu.
Á námskeiðinu hönnuðu nemendur m.a. spurningakönnun vegna sinna eigin viðskiptahugmynda. Að því búnu var gerð afmörkuð markaðsrannsókn með þátttöku vina, ættingja og viðskiptavina. Niðurstöður voru síðan greindar með aðferðum tölfræðinnar.
Námskeiðið tókst gríðarlega vel og vonast Bjarki til þess að hægt verði að halda sambærilegt námskeið aftur að einhverjum tíma liðnum. Sierra Leone sé eitt fátækasta land heims. Tækifæri til menntunar séu af skornum skammti og segist Bjarki þakklátur fyrir að hafa fengið þetta tækifæri til að leggja sitt af mörkum.
„Mig langar að vekja sérstaka athygli á því Grettistaki, sem Aurora velgjörðarsjóður er að lyfta með því að fjárfesta í ungu fólki í landinu. Regína Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Aurora, heldur um taumana á staðnum og langar mig einnig að þakka henni fyrir frábæra aðstoð og undirbúning vegna námskeiðsins. Þá vil ég einnig þakka Háskólanum á Bifröst og utanríkisráðuneytinu fyrir að styrkja námskeiðshaldið,“ segir Bjarki.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta