Úttekt á Háskólanum á Bifröst 26. október 2020

Úttekt á Háskólanum á Bifröst

Vikuna 26. til 30 október fer fram ytri gæðaúttekt á Háskólanum á Bifröst. Gæðaráð íslenskra háskóla stendur fyrir úttektum sem þessum á háskólum á 5-6 ára fresti og er þetta í annað sinn sem Háskólinn á Bifröst fer í gegnum slíka úttekt. Úttektin er gerð af teymi sem skipað er fjórum erlendum sérfræðingum og einum íslenskum stúdent.

Meginmarkmið úttektarinnar er að stuðla að stöðugum umbótum í starfsemi skólans og er sérstaklega horft til gæða prófgráða, upplifunar nemenda gagnvart skólanum og þeirri námslínu sem þeir stunda nám við og umgjörðar rannsókna við háskólann.

Vikurnar fyrir sjálfa úttektarvikuna hefur úttektarteymið kynnt sér starfsemi háskólans og m.a. fengið til þess skýrslur og ýmis fylgigögn, þar á meðal sjálfsmatsskýrslur hákóladeilda skólans. Í úttektarvikunni fundar teymið með stjórn háskólans og aðilum úr fulltrúaráði, háskólaráði, deildarráðum og stjórn Nemendafélags skólans, stjórnendum, kennurum og öðru starfsfólki, fulltrúum nemenda og útskrifaðra nemenda og fulltrúum stundakennara við háskólann. Alls verða haldnir meira en 20 fundir og verða þátttakendur um 80. Allir fundirnir fara fram gegnum fjarfundabúnað.

Þá verða haldnir opnir fundir með nemendum og starfsfólki þar sem þeim stendur til boða að hitta teymið og koma á framfæri sjónarmiðum varðandi nám, kennslu og tengda þætti við háskólann. Þeir fundir fara einnig fram gegnum fjarfundabúnað.

Stefán Kalmansson, gæðastjóri Háskólans á Bifröst hefur haft veg og vanda að undirbúningi gæðaúttektarinnar. „Úttektin er lokaskrefið í ferli sem hefur staðið yfir síðustu misseri til undirbúnings og markmiðasetningar. Skilgreind hafa verið mikilvæg umbótaverkefni sem háskólinn ætlar sér að vinna að á næstu misserum til að gera góðan háskóla enn betri,“ segir Stefán.

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta