Útskrift úr Mætti kvenna 15. desember 2017

Útskrift úr Mætti kvenna

Þann 14. desember síðastliðinn útskrifuðust 30 konur úr Mætti kvenna. Um er að ræða 11 vikna nám fyrir konur sem vilja öðlast þekkingu og færni í rekstri fyrirtækja. Hefur námið átt miklum vinsældum að fagna allt frá árinu 2004 og hafa nú rúmlega 900 konur útskrifast úr náminu.

Útskriftin fór fram við hátíðlega athöfn á Bifröst og ávarpaði Dr. Sigrún Lilja Einarsdóttir forseti félagsvísinda- og lagadeildar útskriftarhópinn. Fjallaði hún meðal annars um þá staðreynd að starfsfólk og velunnarar Háskólans á Bifröst eru stolt að því að vera í fararbroddi í valdeflingu kvenna og stuðla að kynbundnu jafnrétti í hvívetna.

„Enn þann dag í dag njóta konur ekki sammælis í atvinnulífinu, þó svo að rannsóknir sýni fram á að fyrirtæki og stofnanir með jöfn kynjahlutföll í stjórn og æðstu stjórnendastöðum séu almennt betur rekin og síður áhættusækin en fyrirtæki þar sem yfirgnæfandi meirihluti karla er við stjórnvölinn. Að hunsa hæfileika og vilja kvenna til að leggja sitt af mörkunum er vegferð hinna glötuðu tækifæra og þessu þurfum við að breyta“ segir Sigrún Lilja í ræðu sinni.

Kennsla í Mætti kvenna fer fram í fjarnámi en að auki eru kennslustundir á vinnulotum þar sem lögð er áhersla á hópavinnu nemenda. Þá eru haldnar vinnuhelgar á Bifröst í upphafi og um miðbik námsins en náminu lýkur með formlegri útskrift. Næsta námskeið hefst 9. febrúar næstkomandi og má nálgast allar helstu upplýsingar um námskeiðið hér .

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta