Úr kennslu í lögfræðinám 13. júní 2016

Úr kennslu í lögfræðinám

Lilja Björg Ágústsdóttir er meistaranemi í lögfræði við Háskólann á Bifröst. Hún býr í uppsveitum Borgarfjarðar, er gift og á þrjá syni. Lilja Björg lauk B.ed. gráðu í grunnskólakennarafræðum frá Háskóla Íslands árið 2011 og starfaði sem grunnskólakennari á árunum 2006 – 2014. Lengst af kenndi hún við Grunnskóla Borgarfjarðar á Kleppjárnsreykjum.

Ég hef alltaf haft áhuga á lögfræði og hafði gengið lengi með þá hugmynd í maganum að skrá mig í laganám áður en ég sló til. Viðskiptalögfræði við  Háskólann á Bifröst varð fyrir valinu því að mér fannst þverfagleg gráða samsett af viðskipta- og lögfræði hljóma mjög spennandi. Einnig veitir námið lögfræðingum töluvert forskot þegar út í atvinnulífið er komið, þ.e. að vera lögfræðingur sem er jafnframt læs á fjármál. Námið var mjög krefandi en ég fann hversu vel kennaranámið nýttist mér þegar á hólminn var komið og sé ekki eftir að hafa stigið þetta skref,” segir Lilja Björg um aðdraganda þess að hún ákvað að hefja lögfræðinám.

Kennsluhættir er henta vel á meistarastigi

Eftir að hafa klárað BS gráðu í viðskiptalögfræði hóf Lilja meistarnám í lögfræði við Háskólann á Bifröst. Lilja Björg segir að þeir kennsluhættir sem skólinn hafi innleitt henti mjög vel námi á meistarastigi. Kennsluhættirnir byggja á því að veita til að mynda mjög góðan aðgang að kennurum og kennslan verði mun persónulegri fyrir vikið. Kennslan er spegluð, en í því felst að nemendur hlusta á alla fyrirlestra fyrir kennslutímann. Fyrirlestrar kennara eru settir á netið fyrir nemendur og kennslustundum er svo varið í að vinna raunhæf verkefni, greina dóma og spyrja kennarana spjörunum úr. Fyrir vikið sé mikið um samtöl milli nemenda og kennara sem dýpki skilning á efninu mjög.

Námið hefur reynst mjög vel. Mikið er lagt upp úr samhengi raunhæfra verkefna og fræðilegrar umfjöllunar  sem veitir nemendum djúpan skilning á viðfangsefninu. Einnig er áhersla á framsögn, skýra framsetningu og öguð vinnubrögð sem gefur nemendum sjálfstraust og færni til þess koma fram hvar sem er og rökstyðja máls sitt. Ég er mjög virk í félagsstörfum en er m.a. varamaður í sveitastjórn og aðalmaður í fræðslunefnd en ég finn að það veganesti sem laganámið á Bifröst hefur gefið mér, nýtist mjög vel í allri þeirri vinnu. Einnig er ég nú í starfsnámi á lögfræðistofunni Lagaþingi þar sem ég fæ að taka fullan þátt í þeim verkefnum sem koma þar inn á borð og fæ því góða innsýn í störf lögmanna. Það er ómetanleg reynsla,“ segir Lilja Björg.

Hvert stefnir þú síðan að námi loknu?

„Ég stefni á að taka lögmannspróf og hef áhuga á því að starfa sem lögmaður í framtíðinni. Einnig hef ég mikinn áhuga á kennslu og að nýta mér þá menntun sem ég hef þar. Því getur vel komið til greina að ég starfi við kennslu samhliða lögfræðistörfunum. Eins að ég fari í framhaldsnám á sviði lögfræðinnar sem myndi opna möguleika á rannsóknar og fræðistörfum,“ segir Lilja Björg að lokum.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta