Upplifði Bifrastarandann í Harvard
Brynhildur S. Björnsdóttir, framkvæmda- og fjármálastjóri GG Verk, útskrifaðist úr BA námi í HHS (heimspeki,hagfræði og stjórnmálafræði) frá Háskólanum á Bifröst árið 2007. Þegar Brynhildur hóf nám í HHS árið 2005 var hún 28 ára og hafði verið í námshléi frá stúdentsprófi en þyrsti í meira nám.
Á mínum námsferli er HHS enn erfiðasta námið. Ég hafði ekki verið í námi lengi og var á þessum tíma ein með þrjú börn. Metnaðurinn og vinnan í náminu var mikil en ég lærði líka fljótt að skipuleggja mig og forgangsraða sem hefur hjálpað mér í einu og öllu síðan. Ég valdi þetta nám því mér fannst mig vanta ákveðna þekkingu og skilning á grunnhugtökum sem maður heyrði í fréttum og langaði að skilja hvernig samfélagið virkar. Hagfræðin og stjórnmálafræðin skiluðu mér því og leiddu mig út í stjórnmál síðar, en ég er stjórnarformaður Bjartrar framtíðar og varaþingmaður. En í raun situr heimspekin mest í mér úr náminu. Ég vanmat heimspekina til að byrja með en í henni lærði maður að takast á við allar spurningar með opnum huga, velta fyrir sér öllum hliðum og gera sér grein fyrir að það er ekki til neitt eitt, rétt svar. Þetta getur flækt ákvarðanatöku en á móti kemur að hún verður oft betri,“ segir Brynhildur.
Atvinnulífið er hópavinna
Brynhildur segir atvinnulífið í raun ekki vera annað en hópavinnu enda komist fólk ekki í gegnum neitt starf án þess að vinna með fólki. Mikil hópavinna í HHS náminu hafi því reynst vel og eins að hafa þá gert sér grein fyrir veikleikum sínum og styrkleikum í slíku starfi. En í upphafi námsins tóku nemendur persónuleikapróf þar sem kom í ljós að Brynhildur er góð frágangsmanneskja og tók hún því oft að sér að gera heimildaskrá og aðra frágangsvinnu.
„Ég lærði líka að vinna í mínum helsta veikleika sem var sá að ég var mjög áhættufælin og vildi alltaf fara öruggu leiðina að hlutunum. Þetta hefur stökkbreyst, sem betur fer, því stjórnandi verður að taka áhættusæknar og oft erfiðar ákvarðanir. Ég gerði mér grein fyrir því hve takmarkandi það er að fara öruggu leiðina og lærði svo enn frekar í meistaranámi að greina fyrst aðstæður og taka í framhaldinu viðeigandi ákvarðnir sem dregur um leið úr óþarfa áhættu,“ segir Brynhildur.
Endurmenntun í Harvard
Brynhildur er nú nýkomin heim frá Boston þar sem hún sótti endurmenntun í Harvard háskóla fyrir framkvæmdastjóra víða um heim. Um er að ræða sérstakt námskeið fyrir fólk sem hefur meistarapróf í stefnumiðuðum stjórnendafræðum og hefur nú möguleika á að sækja tvö slík námskeið til viðbótar og verða þá Harvard Alumni.
„Ég bjó í Boston þegar ég var yngri og þetta var minn draumur. Háskólaþorpið og borgin sjálf er æðisleg og þarna eru allir í sínum eigin heimi að læra á fullu þannig að ég upplifði eiginlega Bifrastar stemninguna smá þarna aftur. Námskeiðið að þessu sinni var í tíu daga með dagskrá frá átta á morgana til tíu á kvöldin og samsett af fyrirlestrum og umræðuhópum en áður en ég fór út hafði ég lesið og gert greiningu á fyrirtækjum sem þar voru til umræðu. Kennararnir eru í raun meira eins og uppistandarar í sínu fagi, svo listilega kenna þeir. Svo voru þarna kanónur sem maður hefur lesið um og jafnvel lesið bækur eftir þannig að þetta var heilmikil lífsreynsla,“ segir Brynhildur.
Til að komast að á slíku námskeiði þarf viðkomandi að hafa átta ára stjórnendareynslu og var Brynhildur ungliðinn í hópnum en þátttakendur voru flestir á aldrinum 45-55 ára. Valin eru úr 5% af hópi þátttakenda hverju sinni og voru 90 manns á námskeiðinu en aðeins 10 konur.
Innleiðir kvenleg gildi
„Það var mikill kynjahalli í hópnum og flestar þeirra áttu engin börn en ég á fjögur og vakti það athygli að á Íslandi þyrftu konur ekki að velja annað hvort fjölskyldu eða frama. Það var lærdómsríkt að sjá hve langt við erum komin á Íslandi, þó margt megi enn betur fara. Sjálf vinn ég á 55 manna vinnustað með einni annari konu og ég reyni að innleiða kvenleg gildi og innsæi á vinnustaðinn sem hugnast þeim vel. Enda dyggur talsmaður jafnréttis. Þá hef ég líka verið stjórnarformaður fyrir Bjarta framtíð og verið nokkrum sinnum inn á þingi sem varaþingmaður. Svo eru það blessuð börnin sem eru þó ótrúlega sjálfstæð og dugleg svo það er nóg að gera,“ segir Brynhildur og bætir við að hún vonist til að geta sótt næstu námskeið hjá Harvard en slíkt sé aðallega spursmál um tíma og peninga.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta