Frá undirritun samningsins, f.v. Kasper Simo Kristensen, Hanna Kristín Skaftadóttir og Margrét Jónsdóttir Njarðvík.

Frá undirritun samningsins, f.v. Kasper Simo Kristensen, Hanna Kristín Skaftadóttir og Margrét Jónsdóttir Njarðvík.

3. júlí 2024

Ungir grænir frumkvöðlar fá Evrópustyrk

Nýlega var af hálfu Selçuk Üniversitesi og Háskólans á Bifröst undirritaður samningur vegna Erasmus+ styrkveitingar til „Young Green Entrepreneurship Ecosystem Project“ verkefnisins.

Samninginn vegna styrksins undirrituðu f.h. Háskólans á Bifröst Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor, Kasper Simo Kristensen, rannsóknastjóri og Hanna Kristín Skaftadóttir, fagstjóri við viðskiptadeild HB.

Verkefnið er á sviði nýsköpunar og miðar að því að efla og stuðla að grænni frumkvöðlastarfsemi (e. green entrepreneurship) á meðal ungs fólks í Evrópu. Með stjórn þess fara Metin Aksoy, Selçuk Üniversitesi í Konya Tyrklandi og Hanna Kristín Skaftadóttir, Háskólanum á Bifröst.

Markmið þessa áhugaverða nýsköpunarverkefnis er að hvetja og styðja unga græna frumkvöðla með því að skapa þeim aðgang að m.a. sérhæfðri þjálfun og fjármagni. Á meðal afurða verkefnisins má þannig nefna aukna vitund og skilning á grænni frumkvöðlastarfsemi á meðal ungs fólks, kennara og annarra haghafa ásamt samskiptavettvangi (e. platform) sem veitir jafnframt ungu fólki aðgang að nauðsynlegum stuðningi til grænnar frumkvöðlastarfsemi.

Þá verða gagnreyndum þjálfunareiningum eða hröðlum einnig komið á fót og styrkari stoðum rennt undir samstarf og samvinnu á meðal þátttökustofnana.

Markmiðum verkefnisins verður náð með m.a. gerð ýtarlegrar þarfagreiningar og skilgreiningu lykilhagsmunaaðila, þróun sérhæfðra þjálfunareininga, hönnun á námi, kennslu og þjálfunar (LTT) til að meta árangur þjálfunareininga og stofnun Green Entrepreneurship Ecosystem Platform á grundvelli aðgengilegra fjármögnunarmöguleika og þróunarauðlinda.

Samstarfsaðilar verkefnisins hlakka að vonum til að takast á við það spennandi og metnaðarfulla starf sem bíður þeirra:

Metin Aksoy, fulltrúi Selçuk Üniversitesi: „Þetta verkefni táknar mikilvægt skref fram á við í skuldbindingu okkar við að efla sjálfbæra þróun og nýsköpun í frumkvöðlastarfsemi meðal ungs fólks. Við erum spennt að vinna með Háskólanum á Bifröst og öðrum hagsmunaaðilum til að skapa varanleg áhrif.“

Hanna Kristín Skaftadóttir frá Háskólanum á Bifröst: „Við erum stolt af því að vera í samstarfi við Selcuk háskóla í þessu mikilvæga verkefni. Með því að nýta sameiginlega sérþekkingu okkar, ætlum við að efla næstu kynslóð grænna frumkvöðla og stuðla að sjálfbærri framtíð.“

Erasmus+ er áætlun ESB til að styðja við menntun, þjálfun, ungmenni og íþróttir í Evrópu. Fjármögnun þess veitir milljónum Evrópubúa tækifæri til að stunda nám, þjálfun, öðlast reynslu og sinna sjálfboðastarfi erlendis.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta