15. maí 2017
Umsóknarfrestur í meistaranám við Háskólann á Bifröst er til 15. maí
Umsóknarfrestur í meistaranám við Háskólann á Bifröst er til og með 15. maí. Í boði er framsækið nám í viðskipta- lögfræði- og félagsvísindadeild. Háskólinn á Bifröst er í fararbroddi í fjarnámi, allt meistaranám er kennt í fjarnámi og þannig geta nemendur stundað námið með vinnu á eigin hraða.
Meistaranám í markaðsfræði,viðskiptalögfræði og menningastjórnun
Við viðskiptadeild Háskólans á Bifröst er í boði meistaranám í forystu og stjórnun. Námið hefur verið í boði við deildina frá árinu 2014 og átt miklum vinsældum að fagna og frá og með hausti verður einnig í boði meistaranám í forystu og stjórnun með áherslu á mannauðsstjórnun. Einnig er nú í boði nýtt meistaranám í markaðsfræði sem er ætlað þeim sem starfa, eða hafa hug á að starfa við markaðsmál en vilja dýpka þekkingu sína í markaðsfræði.
Í lagadeild er í boði nýtt meistaranám í viðskiptalögfræði, MBL, námið er eina sinnar tegundar á Íslandi og fléttast saman í því tvær hagnýtar námsgreinar, viðskipta-og lögfræði. Námið er ætlað jafnt nemendum með BS eða BA gráðu í lögfræði og þeim sem lokið hafa háskólaprófi úr öðrum greinum.
Innan félagsvísindadeildar er í boði meistaranám í menningarstjórnun sem hefur verið sívinsælt nám síðan það hóf göngu sína fyrir rúmum áratug. Námið byggir jafnt á fræðilegri og hagnýtri nálgun sem gefur nemendum kost á að vinna með og þróa gagnrýna sýn á menningu og menningarpólitík, um leið og þeir öðlast hagnýta þjálfun sem lýtur að rekstri, stjórnun og skipulagningu.
Allt nám við Háskólann á Bifröst er kennt í lotubundinn vendikennslu sem er þannig uppbyggð að nemendur fá fyrirlestra á rafrænu formi og sækja síðan umræðu- og verkefnatíma með kennurum. Á öllum sviðum háskólans er lögð rík áhersla á hópavinnu og raunhæf verkefni sem undirbýr nemendur fyrir atvinnulífið.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta