Umsóknarfrestur í grunnnám og Háskólagátt við Háskólann á Bifröst til 15. júní
Umsóknarfrestur í grunnnám og Háskólagátt við Háskólann á Bifröst er til og með 15. júní. Í boði er framsækið nám í viðskipta- lögfræði- og félagsvísindadeild. Háskólinn á Bifröst er í fararbroddi í fjarnámi og allt nám við háskólann kennt bæði í fjar- og staðnámi.
Viðskiptanám í sérflokki, einstakt viðskiptalögfræðinám og nám í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði að breskri fyrirmynd
Við viðskiptadeild Háskólans á Bifröst er í boði BS nám í viðskiptafræði með þremur ólíkum áherslum; á markaðssamskipti, ferðaþjónustu og þjónustufræði. BS nám með áherslu á markaðssamskipti hefur t.a.m. verið í sérflokki á Íslandi með fjölbreyttu úrvali markaðsfræðiáfanga í meira en áratug.
Við lagadeild er í boði BS nám í viðskiptalögfræði þar sem fléttast saman tvær hagnýtar námsgreinar þannig að úr verður fjölbreytt og krefjandi grunnnám sem þjónar hagsmunum atvinnulífsins einkar vel. Megináhersla er lögð á kjarnagreinar lögfræðinnar en jafnframt þær greinar viðskiptafræðinnar sem tengjast rekstri, upplýsingatækni og fjármálum.
Innan félagsvísindadeildar er í boði BA nám í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði (HHS) og BA nám í miðlun og almannatengslum. BA nám í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði hefur verið í boði í rúman áratug og er uppsett að erlendri fyrirmynd, einkum frá Oxfordháskóla í Bretlandi. BA nám í miðlun og almannatengslum er ný tegund af námi hér á landi sem miðar að því að búa nemendur undir þátttöku á vinnumarkaði sem gerir æ ríkari kröfur um þekkingu og fagleg vinnubrögð er lúta að samskiptum við fjölmiðla, fyrirtæki, einstaklinga og stofnanir.
Allt nám við Háskólann á Bifröst er kennt í lotubundinn vendikennslu sem er þannig uppbyggð að nemendur fá fyrirlestra á rafrænu formi og sækja síðan umræðu- og verkefnatíma með kennurum. Á öllum sviðum háskólans er lögð rík áhersla á hópavinnu og raunhæf verkefni sem undirbýr nemendur fyrir atvinnulífið.
Nýjungar í Háskólagátt
Háskólagáttin þjónar þeim sem fullnægja ekki formlegum inntökuskilyrðum háskóla og veitir undirstöðumenntun á framhaldsskólastigi. Háskólinn á Bifröst er í fararbroddi í fjarnámi og nám í Háskólagátt í boði bæði í fjar- og staðnámi.
Nám í Háskólagátt er nú einnig í boði með áherslu á verslun og þjónustu. Annars vegar er í boði fjögurra anna fjarnám og hins vegar tveggja anna fjarnám án kjarnagreina. Mikil áhersla er lögð á hagnýtingu námsins og hentar það öllum þeim sem hafa áhuga á að starfa innan verslunar og þjónustu.
Umsagnir nemenda um nám við Háskólann á Bifröst
„Námið nýtist mikið í minni vinnu, sama hvort það er á blogginu eða í sjónvarpinu. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir mig að geta nálgast og lært af kennurum sem hafa menntun og reynslu í faginu og geta nýtt mér það í mínum daglegu störfum. Fjarnám er frábær leið til að geta stundað bæði vinnu og nám.“ Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir, dagskrárgerðarkona og nemandi í BS námi í viðskiptafræði með áherslu á markaðssamskipti.
„Uppbygging námsins og þessi mikla hópavinna, sem lögð er áhersla á innan þess, hefur gefið mér góða samskiptahæfni og fyrir vikið tel ég mig umburðarlyndari og sterkari sem einstakling. Þarna var kominn saman hópur kraftmikilla og metnaðarfyllra nemenda sem hafa áhuga á að ná árangri og slíkt umhverfi er aðlaðandi fyrir hvaða nemanda sem er. Með því að fá að velta hlutunum fyrir sér og spyrja spurninga nær maður utan um námsefnið á árangursríkan hátt.“ Hanna Björg Konráðsdóttir, lögfræðingur hjá Orkustofnun, BS og ML gráða í viðskiptalögfræði 2014.
„Ég valdi BA nám í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði því mér fannst mig vanta ákveðna þekkingu og skilning á grunnhugtökum sem maður heyrði í fréttum og langaði að skilja hvernig samfélagið virkar." Brynhildur S. Björnsdóttir , framkvæmdastjóri GG Verk ehf og formaður stjórnar Sjúkratrygginga Íslands, BA í heimspeki- hagfræði og stjórnmálafræði 2007.
„Þetta nám hentar mjög vel fyrir alla sem vilja fara aftur af stað. Ég var rétt tæplega þrítugur þegar ég settist aftur á skólabekk og var ekki viss um að ég myndi passa inn í hópinn en sá fljótt að vel var tekið á móti öllum. Kennararnir leggja sig fram við að veita manni þá aðstoð sem maður telur sig þurfa og gera efnið áhugavert. Svo er einstaklega gott að búa á Bifröst.“ Hlynur Hansen, Háskólagátt 2014.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta