Tíu hugmyndir keppa til úrslita í Gullegginu 2016 29. febrúar 2016

Tíu hugmyndir keppa til úrslita í Gullegginu 2016

Í ár bárust um 200 viðskiptahugmyndir, þar af 80 viðskiptaáætlanir, í Gulleggið, stærstu frumkvöðlakeppni landsins. Hátt í 100 manna rýnihópur, skipaður til jafns konum og körlum, með fjölbreyttan bakgrunn las hugmyndirnar yfir og hafa þær tíu stigahæstu nú verið valdar;

Arkvit - Þróar þýðingararlausn sem notast við nýja algóritma sem ná 50% betri árangri en aðrar þýðingarvélar

Gagnleg Hugsun - Gagnleghugsun.is býður upp á sálfræðiþjónustu á netinu

Hringborð - Hringborð er app sem hvetur fólk til að hjálpast að í háskólanámi

Icelandic Lava Show - Lifandi rauðglóandi hraunsýning

Lífvera – Meniga heilsunnar

Pay Analytics - Hugbúnaður sem lágmarkar kostnað við að útrýma kynbundnum launamun

Platome líftækni - Aðferð sem styður við framfarir í stofnfrumurannsóknum og læknisfræði með blóðflögum

Shortcut – Áfangastaður þinn - Einum smelli nær

Tipster – Fyrir þá sem vilja hagnast á íþróttaveðmálum

Zeto – Lífrænar húðvörur úr þaraþykkni

Laugardaginn 12. mars munu þessi tíu teymi kynna hugmyndir sínar fyrir dómnefnd Gulleggsins, sem skipuð er fjárfestum og reynsluríkum stjórnendum. Síðar þann dag fer fram lokahóf Gulleggsins þar sem tilkynnt verður um sigurvegarana árið 2016. Lokahófið er opinn viðburður og fer í ár fram í Sólinni, miðrými Háskólans í Reykjavík.

Gulleggið er haldið á vegum Icelandic Startups (áður Klak Innovit) í samstarfi við stærstu háskóla landsins með stuðningi lykilaðila í íslensku atvinnulífi. Keppnin fer fram frá janúar til mars ár hvert en frá því í janúar hafa þátttakendur sótt vinnusmiðjur þar sem þeir hafa fengið leiðsögn og fræðslu til að þróa hugmyndir sínar áfram þannig að eftir standi raunhæfar og vandaðar áætlanir.

Gulleggið fór fyrst fram árið 2008 en frá þeim tíma hafa um 2.200 hugmyndir borist í keppnina. Fjölmörg fyrirtæki sem náð hafa eftirtektarverðum árangri hafa stigið sín fyrstu skref í Gullegginu. Þar á meðal má nefna Meniga, Videntifier, Clara, Controlant, Solid Clouds, Radiant Games, Betri svefn, Pink Iceland, o.fl.

Við framkvæmd Gulleggsins nýtur Icelandic Startups liðsinnis fjórtán sjálfboðaliða úr röðum nemenda samstarfsháskólanna; HR, HÍ, Bifröst og LHÍ.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta