Til hvers að tala íslensku?
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, deildarforseti félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst, ritaði nýlega blaðagrein (Mbl. 11.01.2024) um málefni íslenskrar tungu, sem vakið hefur verðskuldaða athygli.
Á meðal þess sem Ólína vekur athygli er að sú hrakspá að enskan eigi ef til vill eftir að taka við af íslenskunni sé ekki illa ígrunduð upphrópun heldur grafalvarlegt mat á óheillavænlegri þróun sem vart dylst neinum.
Jafnframt bendir hún á að slakur árangur íslenskra ungmenna í PISA-könnunum standi augljóslega í beinu samhengi við þessa veiku stöðu íslenskunnar. Niðurstaðan sýni raunverulega hættu á því að rétt innan við helmingur íslenskra ungmenna sé dæmdur til skertra tækifæra í lífinu þar sem þau geta síður nýtt sér menntunar- og atvinnumöguleika hér á landi.
Þá sé þessi óheillavænlega staða ekki aðeins ávísun á veikari félagslega stöðu komandi kynslóðar. Hún sé hættuleg í öllum skilningi – ekki síst sjálfu lýðræðinu. Þörfin fyrir faglega og markvissa umgjörð um málefni íslenskrar tungu hafi því aldrei verið brýnni en nú.
Mikilsverður liður í endurreisn íslenskunnar er að mati Ólínu, að fylgja eftir íslenskri málstefnu og virkja hana í reynd. Staðan nú sé þannig að skil milli stefnumótunar og framkvæmdar í málefnum íslenskrar tungu eru óljós og forræðið ekki á einni hendi.
„Þessu þarf að breyta og gera faglegar undirstöður málaflokksins óháðari pólitískum áherslumun frá einum tíma til annars. Góður ásetningur einstaka ráðherra – líkt og þess sem nú situr – dugir skammt þegar málaflokkurinn í heild sinni er ofurseldur pólitískum sviptivindum og óljósu forræði,“ ritar Ólína.
Annað sóknarfæri liggur síðan í íslenskukennslu fyrir fólk af erlendum uppruna. Hana þarf að mati Ólínu að stórbæta og efla til muna.
Þá þurfi markviss lestrarkennsla og lesþjálfun að fara fram ekki aðeins í grunnskóla heldur einnig í framhaldsskólum. Læsi sé lykill að allri menntun og upplýsingaúrvinnslu í okkar tækniþróaða samfélagi. Þann grunn má hvorki vanmeta né vanrækja.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta