Þverfagleg gráða í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði 1. júní 2017

Þverfagleg gráða í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði

Við félagsvísindadeild hefur í rúman áratug verið í boði BA nám í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði (HHS). Námið er uppsett að erlendri fyrirmynd, einkum frá Oxfordháskóla í Bretlandi en margir þarlendir forsætisráðherrar hafa  lokið slíkri gráðu. Námið er þó alls ekki bundið þeim sem hyggja á stjórnmálastarf og hérlendis hafa margir útskrifaðir nemendur skapað sér starfsframa í fjölmiðlum, stofnað og starfað hjá stórum fyrirtækjum, starfað innan stjórnsýslunnar eða farið utan og starfað  hjá alþjóðafyrirtækjum.

Forysta í samfélagi og viðskiptalífi

„Hugmyndin með náminu er sú að gera nemendum kleift að skilja hið flókna gangverk samfélagsins og þjóðfélagsþróunar. Til þess duga í raun ekki aðeins greiningartæki hvers fræðasviðs fyrir sig heldur gefur gleggri mynd að beita öllum þessum þremur sjónarhornum, heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði, með samfléttaðum hætti. Þetta passar gríðarlega vel við þá áherslu á Bifröst að samflétta forystu í samfélagi og viðskiptalífi og er í raun það sem kristallast í þessari gráðu. Til að verða farsæll í viðskiptum getur t.a.m. verið gott að hafa tæki sem gera þér kleift að greina þjóðfélagsþróunina. Þetta er einstakt nám fyrir þá sem hafa áhuga á efnahagsmálum, viðskiptum og stjórmálum. Það gefur ekki aðeins einstaka heldur einnig öfluga sýn á þjóðfélagsþróunina, opnar dyr til svo margra áhugaverðra átta í framhaldinu og skapar fleiri tækifæri en flest önnur fög í félagsvísindum,“ segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við félagsvísindadeild.

Í náminu eru kennd grundvallaratriði í hagfræði, stjórnmálafræðilegri greiningu og heimspekilegri hugsun en einnig eru námskeið innan þess sem eru þverfagleg greining á það sem er að gerast hverju sinni t.a.m. efnahagspólitík, kynjapólitík, Norðurslóðamálefni eða þjóðernishyggju. Eiríkur tekur sem dæmi að ef fólk vilji  reyna að skilja flóttamannastrauminn, líkt og hann hafi blasað við undanfarin ár, þá dugi ekki að skoða þau átök sem hafi skapast í kringum málefnið eingöngu út frá efnhagsástæðum, ríkjapólitík, stríðsrekstri eða út frá siðferðilegum álitamálum um manngildi heldur verði að flétta þessa þætti saman og ná þannig heildstæðri sýn á þennan vanda til að skilja hann og HHS sé hugsað sem nám sem veiti tæki til einmitt þess.

Samfélagslega þenkjandi hópur

Nemendur segir Eiríkur koma úr öllum átttum en oftast eigi þeir sameiginlegt að vera samfélagslega þekjandi fólk sem hafi áhuga á þjóðfélagi og efnahagslífi. Nemendur í HHS fara gjarnan í skiptinám og segir Eiríkur smæð Háskólans á Bifröst þar vera mikinn styrk en kennarar hafa getað hjálpað nemendum á einstaklingsgrunni að komast inn í marga af bestu skólum heims.

„Það er skemmtilegast að sjá nemendur öðlast gagnrýna hugsun og byrja að beita henni. Það er ekkert eins nærandi fyrir kennarann eins og skarpur nemandi sem getur ögrað því sem kennarinn hefur að segja og tekist á við hann í rökræðum og með gagnrýninni nálgun. Það eru oft langbestu kennslustundirnar þegar rökræðan kemst á ákveðið flug og við höfum átt mjög marga virkilega góða nemendur sem hafa orðið sífellt öflugri í þeirri rökræðu,“segir Eiríkur að lokum.

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta