
Styrkhafar f.h. Birna Klara Björnsdóttir, Jón Haukur Unnarsson og Steinunn Anna Gunnlaugsdóttir móðir Rakel Mjallar Leifsdóttur
9. október 2025Þrír nemendur í menningarstjórnun styrktir af RSG
Þrír meistaranemar í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst hlutu nýverið styrk úr meistaranemasjóði Rannsóknaseturs skapandi greina (RSG). Þetta er í þriðja sinn sem úthlutað er úr sjóðnum en að þessu sinni voru veittir þrír styrkir til fjölbreyttra rannsóknarverkefna á sviði skapandi greina. Nemendur Háskólans á Bifröst hluti alla þá styrki sem úthlutað var í þetta skiptið. Úthlutunin fór fram 2. október við upphaf viðburðarins Samtal um listræna stjórnun.
Styrkþegarnir eru:
-
Birna Klara Björnsdóttir fyrir verkefnið Er sviðið mitt? Upplifun sjálfstætt starfandi tónlistarfólks á aðgengi sínu til tónleikahalds í Hörpu.
Markmið verkefnisins er að greina upplifun sjálfstætt starfandi tónlistarfólks af því að koma fram í Hörpu, skoða mismunandi aðgengi og sýnileika tónlistarhópa, og meta hvort Harpa, sem hús í almannaeigu, standi undir markmiðum sínum um faglegan metnað og fjölbreytileika. -
Jón Haukur Unnarsson fyrir verkefnið Hvernig geta sjálfstæðar skipulagsheildir dafnað innan vistkerfis menningar og skapandi greina á Íslandi?
Rannsóknin miðar að því að skerpa sýn á stöðu sjálfstæðra, sjálfsprottinna skipulagsheilda innan menningargeirans á Íslandi og varpa ljósi á starfsumhverfi þeirra og hlutverk í menningarstarfi á landsvísu. -
Rakel Mjöll Leifsdóttir fyrir verkefnið Innleiðing hvatamódels í menningarstefnu: Hvatar, sjálfstæði og stefnumótun.
Verkefnið snýr að því að kanna möguleika á að innleiða skattalega hvata og aðra þætti úr hvatamódeli í íslenska menningarstefnu, með áherslu á alþjóðleg dæmi og leiðir til að styrkja sjálfbærni skapandi greina á Íslandi.
Meistaranemasjóður Rannsóknaseturs skapandi greina styður rannsóknir meistaranema sem varða skapandi greinar og menningartengd málefni. Með úthlutun styrkjanna er markmiðið að efla tengsl rannsóknarstarfs og starfsvettvangs skapandi greina og skapa tækifæri fyrir nemendur til að dýpka þekkingu á mikilvægu sviði.
Við hjá Háskólanum á Bifröst óskum Birnu Klöru, Jóni Hauki og Rakel Mjöll innilega til hamingju og hlökkum til að fylgjast með framvindu verkefna þeirra.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta