Þrengt að frelsi háskóla?
Rising nationalisms, shifting geopolitics and the future of European higher education/research openness (OPEN) er nýtt COST-verkefni sem Háskólinn á Bifröst var á meðal umsóknaraðila að.
Verkefnið er að drjúgum hluta byggt á rannsóknum dr. Eiriks Bergmann, sem birtar voru í bókinni Neo-Nationalism (2020). Frumkvæði að verkefninu höfðu fræðikonurnar Katja Brøgger, pófessor við Árósarháskóla og dr. Hannah Moscovitz, sem starfar við Camebridge háskóla og munu þær jafnframt stýra verkefninu.
„Aðkoma mín er aðallega sú að ég hef verið beðin um að leiða einn af meginþáttum rannsóknasamstarfs verkefnisins næstu fjögur árin,“ segir Eiríkur, sem er að vonum ánægður með að sjá þá viðamiklu rannsókn sem COST-verkefnið felur í sér verða að veruleika.
Spurður að viðfangsefni rannsóknarinnar segir Eiríkur að á síðasta áratug hafi uppgangur nýrrar gerðar af þjóðernishyggju magnað upp andstöðu gegn Evrópusambandinu og samrunastefnu þess. „Þessi pólitísku umbrot hafa að mörgu leyti haft neikvæð áhrif á háskóla innan ESB, með því að þrengja að akademísku frelsi þeirra, stofnanalegu sjálfstæði og svigrúmi til rannsókna og alþjóðasamstarfs.“
Hinn dæmigerði Evrópski háskóli er þannig, að sögn Eiríks, smám saman að verða innlyksa á milli tveggja andstæðra fylkinga, þar sem valdefling á forsendum opinnar samvinnu fullvaldra ríkja tekst í sífellt ríkari mæli á við sjónarmið sem krefjast hertrar verndarstefnu og einangrunar Evrópusambandsins gagnvart umheiminum í nafni öryggis- og varnarmála.
„Verkefnið leiðir saman þverfaglega hópa vísindamanna með það að markmiði að rannsaka þessi síbreytilegu tengsl á milli háskólans, þjóðríkisins og Evrópusamrunans. Á grundvelli þessa rannsóknasamstarfs og þekkingarmyndunar verður leitast við að skilgreina hvernig takast má á við þessa þróun og standa þannig vörð um frelsi háskóla til rannsókna og alþjóðlegs samstarfs í bráð og lengd.“
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta