Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir nýr sviðsstjóri lögfræðisviðs Háskólans á Bifröst
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir verður nýr sviðsstjóri lögfræðisviðs Háskólans á Bifröst. Hún hefur síðustu tvö árin starfað sem aðstoðarsaksóknari hjá embætti ríkissaksóknara og hefur áður reynslu af störfum innan dómstóla sem aðstoðarmaður dómara og hefur einnig starfað við saksókn fyrir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Þorbjörg lauk LL.M. prófi frá lagadeild Columbia háskóla í New York árið 2011 og sérhæfði sig í alþjóðlegum refsirétti, er lögfræðingur frá Háskóla Íslands og hefur lokið diplómaprófi í afbrotafræði frá HÍ. Hún hefur enn fremur unnið við rannsóknarstörf á sviði refsiréttar og fékk m.a. veglegan styrk frá Norræna sakfræðiráðinu 2012, þegar hún vann að rannsókn um afbrotið nauðgun í samvinnu við innanríkisráðuneytið.
Laganemum fjölgar verulega við Háskólann á Bifröst í haust í framhaldi af því að nú er boðið upp á fjarnám í lögfræði og lögfræðinám með vinnu. Þorbjargar bíða því krefjandi verkefni að fylgja eftir miklu uppbyggingarstarfi við lögfræðisvið skólans og leiða frekari sókn.
Helga Kristín Auðunsdóttir sem lætur af störfum sviðsstjóra lögfræðisviðsins mun leiða þróun á sameiginlegu meistaranámi í viðskiptalögfræði með háskólunum í Árósum og í Dublin. Háskólinn á Bifröst fékk sérstakan styrk til þess verks úr Erasmus+ áætluninni og hefur forystu í verkefninu.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta