Þekking í viðskipta- og lögfræði mikilvæg í nútíma starfsumhverfi
Þórdís Sif Sigurðardóttir, sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs og bæjarritari Ísafjarðarbæjar, segir BA nám í viðskiptalögfræði á Bifröst hafa fleytt sér áfram þangað sem hún er í dag og komi kunnátta í fjármálum þar t.a.m. að afar góðum notum þegar komi til þess að gera fjárhagsáætlun fyrir sviðið. Slíkt sé ómetanlegt í bland við góða undirstöðukunnáttu í lögfræði.
„Talað er um að útskrifaðir nemendur úr viðskiptalögfræði kunni að vinna enda snúast verkefnin í náminu um það að takast á við mál frá a til ö og kryfja þau til mergjar. Mikil hóp- og verkefnavinna skilar manni því sannarlega reynslu út í atvinnulífið,“ segir Þórdís
Þórdís segir blöndu af viðskipta- og lögfræðifögum hafa gripið sig við námið á sínum tíma. Hún hafi séð viðskiptalögfræðina sem hagnýta og sérhæfðari lögfræði sem hún gæti nýtt við fjölbreytt störf en hún hafi t.d. aldrei séð fyrir sér að verða héraðsdómslögmaður.
„Meiri kröfur hafa orðið síðastliðin ár um aukna sérhæfingu í lögfræði sem má að hluta til rekja til þess að að farið var að kenna viðskiptalögfræði við Háskólann á Bifröst. Úr slíku námi útskrifast lögfræðingar sem hafa þekkingu í báðum fögum og það er mikilvægt í starfsumhverfi dagsins í dag,“ segir Þórdís.
Þórdís segir að sér hafi fundist námið einstaklega skemmtilegt og þar hafi vegið þyngst samsetning þess og tengingin á milli faganna. Sú sýn Þórdísar að geta nýtt námið við fjölbreytt störf reyndist rétt vera en hún fékk í náminu aukinn áhuga á skattarétti og vann um tíma hjá KPMG í skatta- og félagarétti að því loknu, þá í lánaskjölum og samningum fyrir FL Group og síðar Landsbankann. Einnig starfaði hún í afleysingum sem sviðsstjóri við lögfræðisvið Háskólans á Bifröst. Þann tíma segir hún hafa verið ómetanlegan og hafi hún þá reynt að gefa nemendum og skólanum til baka það sem henni fannst hann hafa gefið sér.
Umsóknarfrestur í BA í viðskiptalögfræði við Háskólann á Bifröst er til 15. júní og nánari upplýsingar um námið má nálgast hér
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta